Handbolti

Sigrar hjá Íslendingaliðunum sem verja toppsætin í Þýskalandi og Svíþjóð

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Alexander Petersson
Alexander Petersson vísir/getty
Rhein-Neckar Löwen vann sinn annan stórsigur á þremur dögum þegar liðið fékk Göppingen í heimsókn í þýsku Bundesligunni í handbolta.

Ljónin tryggðu sér í undanúrslit þýsku bikarkeppninnar á þriðjudaginn með stórsigri á Leipzig. Göppingen spilaði einnig bikarleik á þriðjudag svo liðin fengu jafn litla hvíld á milli leikja.

Heimamenn í Rhein-Neckar settu tóninn strax í upphafi og voru komnir í 4-1 eftir fimm mínútur. Munurinn var kominn upp í sex mörk þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Hálfleikstölur voru 15-11.

Rhein-Neckar byrjaði seinni hálfleikinn á 4-0 kafla og komu stöðunni í 19-11. Eftir það var ekki aftur snúið, sigurinn vís. Svo fór að heimamenn sigruðu með 11 mörkum, 31-20.

Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Rhein-Neckar en Guðjón Valur Sigurðsson komst ekki á blað.

Ljónin eru á toppi deildarinnar með tveggja stiga forystu á Füchse Berlin og mun betri markatölu.

Íslendingalið Kristianstad styrkti enn stöðu sína á toppi sænsku úrvalsdeildarinnar í handbolta með sigri á Lugi.

Ólafur Guðmundsson skoraði 3 mörk, Arnar Freyr Arnasson 1 og Gunnar Steinn Jónsson 2 í 28-25 sigri Kristianstad.

Liðið er nú með átta stiga forystu á Malmö á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×