Erlent

Merkar konur sem aldrei var minnst fá nú minningargreinar

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Charlotte Brontë, Ida B. Wells og Sylvia Plath eru meðal þeirra sem New York Times minnist nú, mörgum árum eftir dauða þeirra.
Charlotte Brontë, Ida B. Wells og Sylvia Plath eru meðal þeirra sem New York Times minnist nú, mörgum árum eftir dauða þeirra. Vísir/Getty

The New York Times mun á næstunni birta eina minningargrein á viku um konur sem hefðu, að mati blaðamanna, átt að fá minningargrein um sig birta á síðum blaðsins þegar þær létust. Greinaröðin heitir Overlooked og voru fyrstu fimmtán greinarnar birtar í dag, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

„Frá árinu 1851 hafa hvítir karlmenn verið fyrirferðarmestir á minningargreinasíðu New York Times. Nú bætum við í safnið sögum 15 merkilegra kvenna,“ segir í kynningu á greinaröðinni.

Jessica Bennett, ritstjóri New York Times um jafnréttismál, hefur yfirumsjón með greinaröðinni. Í samtali við Women‘s Wear Daily segir hún að við undirbúning hafi teymi hennar rekist á nokkra skrítna hluti. Til að mynda að minningargreinar og dánartilkynningar kvenna voru birtar undir nafni eiginmanns þeirra þar til fyrir nokkrum áratugum síðan.

Höfuðstöðvar The New York Times. Vísir/Getty.

Meðal þeirra kvenna sem New York Times minnist nú, mörgum árum eftir dauða þeirra, eru rithöfundurinn Charlotte Bontë, ljóðskáldið Sylvia Plath og Marsha P. Johnson, transkona og aðgerðarsinni sem kastaði fyrsta steininum í Stonewall mótmælunum árið 1969 sem var upphafspunktur réttindabaráttu hinsegin fólks.

Á listanum er einnig að finna blaðakonuna Idu B. Wells sem skrifaði bókina Southern Horrors um aftökur svartra karlmanna á almannafæri án dóms og laga sem voru algengar í suðurríkjum Bandaríkjanna í kjölfar við lok nítjándu aldar og á fyrri hluta þeirrar 20. Þegar Ida B. Wells gifti sig birtist frétt um giftinguna á forsíðu The New York Times en blaðið fjallaði aldrei um fráfall hennar.

Ada Lovelace fær einnig minningargrein, en hún lést árið 1852. Ada Lovelace var stærðfræðingur og er nú til dags talin vera fyrsti forritari sögunnar.

New York Times mun taka við áendingum um konur sem fengu ekki verðskuldaðar minningargreinar hjá miðlinum og verður ein grein birt í hverri viku.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.