Erlent

Trump stendur við tollana

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Vísir/AFP
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, tilkynnti nú í kvöld tolla á innflutning stáls og áls til Bandaríkjanna. Kanada og Mexíkó fái tímabundna undanþágu á meðan fríverslunarsamningur Norður-Ameríku, NAFTA, sé endurskoðaður. Þá gaf forsetinn í skyn að Ástralía og „önnur ríki“ gætu einnig fengið undanþágu.

Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar munu tollarnir taka gildi eftir um fimmtán daga. Um er að ræða 25 prósenta toll á innflutt stál og tíu prósenta toll á ál. Þá áskilur Trump sér réttar til þess að hækka eða lækka tollinn frá einstökum ríkjum. Hann sagðist vilja sanngirni í alþjóðaviðskiptum Bandaríkjanna og sagði sömuleiðis að bæði vinir þeirra og óvinir væru mjög ósanngjarnir.



„Við verðum mjög sanngjarnir, við verðum mjög sveigjanlegir en við ætlum að vernda hagsmuni vinnandi fólks í Bandaríkjunum eins og ég sagðist ætla að gera í kosningabaráttunni,“ sagði Trump.

Þingmenn Repúblikanaflokksins hafa ekki tekið vel í hugmyndir Trump um tolla. 107 þingmenn fulltrúadeildarinnar sendu Trump bréf á dögunum og báðu hann um að hætta við. Þá hefur þingmaðurinn Jeff Flake, sem er Repúblikani, tilkynnt að hann ætli að leggja fram lagafrumvarp sem ætlað er að fella niður tolla Trump. Paul Ryan leiðtogi Repúblikana í fulltrúadeildinni hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann lýsir yfir andstöðu við tollana.

Helsti efnahagsráðgjafi Trump, Gary Cohn, hefur sagt af sér vegna andstöðu sinni við tollana.

Þá hafa nokkur stór ríki og Evrópusambandið sem eiga í viðskiptum við Bandaríkin hótað því að svara fyrir sig með tollum á útflutning Bandaríkjanna. Sérfræðingar hafa varað við mögulegu viðskiptastríði.

Tilkynning Trump í heild sinni
Trump skrifar undir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×