Körfubolti

ÍR getur náð fram hefndum á Stjörnuna │ Svona líta 8-liða úrslit Domino's deildarinnar út

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Quincy Hankins-Cole og Hlynur Bæringsson í einvígi ÍR og Stjörnunnar í 8-liða úrslitunum fyrir ári
Quincy Hankins-Cole og Hlynur Bæringsson í einvígi ÍR og Stjörnunnar í 8-liða úrslitunum fyrir ári vísir/hanna
Loka umferð Domino's deildar karla í körfubolta var leikin í kvöld og liggur nú fyrir hvaða lið mætast í 8-liða úrslitunum.

Haukar urðu deildarmeistarar með þrettán stiga sigri á Val á heimavelli. Keflavík endaði í áttunda sætinu og munu liðin því mætast í 8-liða úrslitunum.

ÍR endaði í öðru sæti eftir sigur á Keflavík og fær Stjörnuna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Þessi lið mættust á sama stigi fyrir ári síðan og unnu Garðbæingar það einvígi 3-0. Þá voru Stjörnumenn hins vegar með heimavallarréttinn en Breiðhyltingar fá hann í þetta skipti.

Tindastóll hreppti þriðja sætið með sigri á Stjörnunni á heimavelli sínum. Þeir munu mæta Grindavík í 8-liða úrslitunum.

Fjórfaldir Íslandsmeistarar KR enda í fjórða sæti í deildinni og eiga því að fá erfiðasta andstæðinginn í 8-liða úrslitunum, liðið sem endaði í fimmta sæti. Það voru Njarðvíkingar sem náðu því og mæta því í Vesturbæinn í næstu viku.

Fyrstu leikir 8-liða úrslitanna fara fram eftir viku, þeir verða spilaðir 15. og 16. mars.

8-liða úrslit Domino's deildar karla:

Haukar - Keflavík

ÍR - Stjarnan

Tindastóll - Grindavík

KR - Njarðvík




Fleiri fréttir

Sjá meira


×