Viðskipti innlent

Pálmasynir boða blandaða byggð í Brúneggjalandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður Gísli Pálmason hefur hug á að byggja upp blandaða byggð í Teigslandi.
Sigurður Gísli Pálmason hefur hug á að byggja upp blandaða byggð í Teigslandi.

Bræðurnir Jón Pálmason og Sigurður Gísli Pálmason hafa áhuga á því að koma upp blandaðri atvinnu- og íbúabyggð í Teigslandi í Mosfellsbæ þar sem Brúnegg voru með eggjaframleiðslu sína. Þetta kemur fram í bréfi Jóns til Bæjarráðs Mosfellsbæjar en bréfið var tekið fyrir á fundi ráðsins í gærmorgun. RÚV greindi fyrst frá.

Jón sendir bréfið fyrir hönd eigenda Teiglands ehf en þeir bræðurnir eiga meirihluta í því. Auk þeirra á Bjarni Ásgeir Jónsson fjórðungshlut ásamt systkinum sínum. Þeir óska eftir fundi með bæjaryfirvöldum um framtíðarnýtingu landsins.

Brúnegg urðu gjaldþrota í mars.Vísir/Daníel

Gjaldþrot eftir fjölmiðlaumfjöllun

„Frá því starfsemi Brúneggja lagðist af fyrir rúmu ári, þá hefur verið farið yfir kosti og galla á áframhaldandi nýtingu þess húsnæðis sem er til staðar. Niðurstaða okkar er að það sé skynsamlegt að skoða aðra valkosti um nýtingu landsins,“ segir í bréfinu.



Eigendur eggjaframleiðslufyrirtækisins Brúneggja, sem hafði bækistöðvar í Teigslandi, óskaði í mars í fyrra eftir því að fyrirtækið yrði tekið til gjaldþrotaskipta. Í tilkynningu frá eigendum Brúneggja sagði að nær öll eggjasala fyrirtækisins hefði stöðvast strax eftir umfjöllun Kastljóss. Fljótlega hefði blasað við að „lífróður eigendanna myndi ekki duga til að halda fyrirtækinu gangandi nema í takmarkaðan tíma.“



Hugmyndir bræðranna Jóns og Sigurðar Gísla snúa að því að fjarlægja núverandi fasteignir af landinu og skipuleggja það með blandaðri atvinnu- og íbúðabyggð.



„Um gæti verið að ræða 10-15 þús. m2 af atvinnuhúsnæði og 200 íbúðir í sérbýli og fjölbýli, bæði á því landi sem er skilgreint í aðalskipulagi sem íbúðasvæði og landbúnaðarsvæði.“

Sigurður Gísli er stjórnarformaður IKEA.Vísir/Ernir

Efnaðir bræður

Jón og Sigurður Gísli hafa verið á meðal efnuðustu manna landsins um árabil. Jón hefur verið á meðal skattakónga en fjallað hefur verið um eignir hans í fjölmiðlum í Danmörku þar sem hann á glæsilegt hús



Sigurður Gísli, sem lengi vel var kenndur við Hagkaup, er eigandi Miklatorgs hf ásamt Jóni bróður sínum. Miklatorg ehf rekur IKEA á Íslandi. Sigurður Gísli er stjórnarformaður IKEA. Þá hefur hann látið í sér heyra í umræðum um virkjun í Árneshreppi á Ströndum en hann telur mun betur til þess fallið að stofna þjóðgarð á svæðinu en að virkja.

Bræðurnir hafa verið iðnir við kaup og sölu lóða undanfarin ár auk þess að hafa komið að rekstri fjölmiðla, Fréttatímans í tilfelli Sigurðar Gísla og Morgunblaðsins í tilfelli Jóns. Þá eru þeir á meðal eigenda Kersins í Grímsnesi.

Bréfið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×