Skoðun

Góðar hugmyndir og vondar

Snædís Karlsdóttir skrifar

Pawel Bartoszek telur það vonda hugmynd að gefa frítt í Strætó. Ókeypis þjónusta sé annað hvort léleg eða samfélagslega dýr. Nær sé að bæta þjónustuna.

Markmið hugmyndar um Borgarlínu er að greiða götur borgarinnar með því að fá fleira fólk til þess að nýta almenningssamgöngur. Hún mun að lágmarki kosta 70 milljarða og ekki hafa nein áhrif á umferðarvandann á næsta kjörtímabili, nema í besta falli í formi umferðartafa ef framkvæmdir myndu hefjast. Að því loknu á síðan eftir að koma í ljós hvort hugmyndin sé yfirhöfuð góð.

Framboð Framsóknar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar leggur til að gerð verði tilraun með að hafa tímabundið frítt í stætó. Markmið hugmyndarinnar er það sama og Borgarlínu nema hvað himinn og haf skilur á milli fórnarkostnaðar í tíma og peningum við það að kanna hvort  hugmyndirnar nái sameiginlegu markmiði sínu.

Ef ekki næst góður árangur af því að hafa frítt í strætó mætti gera aðra tilraun. Hvað með að reykvískir háskólanemar og borgarstarfsmenn fái greiddar t.d. 20 þúsund kr. í samgöngustyrk á mánuði, fyrir það að nýta vistvænan ferðamáta á leið til vinnu eða skóla? Væri það ábátasöm leið til að létta á gatnakerfinu? Mögulega.

Kannski reynast þetta báðar vera vondar hugmyndir, hver veit, en við teljum það aðkallandi að koma með raunhæfar tillögur sem ætlað er að hafa marktæk áhrif sem fyrst, á sem ódýrastan hátt fyrir okkur öll.

Það sem fljótt á litið virðist vond hugmynd gæti nefnilega reynst tilraunarinnar virði, rétt eins og að hugmynd sem virðist góð gæti valdið vonbrigðum í framkvæmd. Við gætum reyndar prófað 70 vondar hugmyndir og athugað hvort þær virki í stað þess að taka áhættuna á því að Borgarlínan sé jafn góð hugmynd og sumir vilja láta.

Höfundur skipar 2. sæti á lista Framsóknarflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.