Enski boltinn

Leicester gekk frá West Brom

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Vardy skoraði fyrir Leicester í dag
Vardy skoraði fyrir Leicester í dag vísir/getty
Það er hart barist í neðri hluta ensku úrvalsdeildarinnar þessa dagana þar sem aðeins 14 stig skilja á milli botnliðsins og 10. sætisins.

Newcastle vann mikilvægan sigur á Southampton og komst fimm stigum frá fallsæti. Kenedy kom heimamönnum í Newcastle á bragðið eftir 63 sekúndur voru liðnar af leiknum með sínu fyrsta marki fyrir félagið.

Hann bætti svo öðru marki sínu við eftir skyndisókn á 29. míníutu áður en Matt Ritchie gulltryggði sigurinn í seinni hálfleik.

Leicester átti ekki í erfiðleikum með botnlið West Bromwich Albion sem fer að falla á tíma í ensku úrvalsdeildinni, liðið er sjö stigum frá Stoke og Crystal Palace í sætunum fyrir ofan sig og átta stigum frá öryggi.

Leikurinn á The Hawthorns byrjaði þó vel fyrir heimamenn því Salomon Rondon kom þeim yfir strax á 8. mínútu. Það tók gestina frá Leicester hins vegar aðeins rúmar tíu mínútur að svara með marki frá Jamie Vardy.

Jafnt var með liðunum í leikhléi en Riyad Mahrez kom Leicester yfir eftir um klukkutíma leik. Kelechi Iheanacho bætti þriðja markinu við á 76. mínútu og Vicente Iborra gulltryggði sigur Leicester með marki í uppbótartíma.

Þá gerðu Huddersfield og Swansea markalaust jafntefli en bæði lið þurftu á sigri að halda. Þau eru jöfn að stigum, með 30 stig líkt og West Ham, og sitja í 13. og 15. sæti deildarinnar. Það eru hins vegar aðeins þrjú stig niður í fallsætið og bæði Crystal Palace og Stoke eiga leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×