Innlent

Bjarni Hilmar fékk miskabætur frá ríkinu

Sigurgeir Ingi Þorkelsson Eyvinds skrifar
Bjarni Hilmar var handtekinn fyrir morðið á eiginkonu sinni sem fyrirfór sér.
Bjarni Hilmar var handtekinn fyrir morðið á eiginkonu sinni sem fyrirfór sér. visir/hanna
Héraðsdómur Reykjavíkur kvað í morgun upp dóm í máli Bjarna Hilmars Jónssonar gegn íslenska ríkinu. Bjarni Hilmar fór fram á skaðabætur vegna ólögmætrar handtöku, og annarra þvingunaraðgerða, sem ollu honum þjáningum og miska.

Bjarni var handtekinn, ásakaður um að hafa myrt eiginkonu sína aðeins örfáum andartökum eftir að andláti hennar hafði verið lýst. Viðtal Vísis við Bjarna þar sem hann segir sína hlið sögunnar vakti mikla athygli, en viðtalið birtist þann 9. febrúar síðastliðinn.

Bjarni Hilmar fór alls fram á 4,2 milljónir króna í bætur en rétturinn dæmdi honum 900.000 krónur í miskabætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum frá 4. júní 2016. Einnig fékk Bjarni málskostnað greiddan.

Varð fyrir bíl

Í málsvörn ríkisins er meðal annars vitnað í lögregluskýrslur og krufningarskýrslu. Skýrsla lögreglunnar varpar ljósi á síðustu tímana í lífi Susan Mwihaki Maina, eiginkonu Bjarna. Seinnipart dags varð hún fyrir bíl á Bústaðavegi. Samkvæmt skýrslu lögreglumanna sem komu að henni sagði Susan að hún væri að flýja heimili sitt eftir rifrildi við manninn sinn. Hún væri ringluð eftir rifrildið og hefði því orðið fyrir bílnum.

Þá sagði Susan að maðurinn hennar beitti hana andlegu og líkamlegu ofbeldi. Susan sagði að maðurinn sinn hefði reynt að kyrkja sig fyrr í vikunni og hún hefði þurft að berja hann af sér. Susan óttaðist um líf sitt. Þegar Susan var komin á slysadeild fundust á henni 590.000 kr og trúði hún starfsfólki þar fyrir því að henni liði illa og hún vildi binda endi á líf sitt.

Bjarni þvertekur hins vegar fyrir að hafa nokkru sinni beitt Susan ofbeldi.

Töldu Bjarna viðbragðslausan

Um nóttina hringdi Bjarni á Neyðarlínuna og lýsir því að hann hafi komið að konunni sinni þar sem hún hafi framið sjálfsmorð. Lögregluskýrsla lýsir undarlegri aðkomu lögreglu- og sjúkraflutningamanna að heimili Bjarna og Susan.

Þegar sjúkraflutningamenn komu á staðinn þurftu þeir að þröngva sér inn en ferðatöskur voru fyrir útidyrahurðinni. Innandyra hafi Bjarni setið í stól við svalahurðina sallarólegur og sýnilega ölvaður. Á gólfinu mátti sjá brotna fjarstýringu og nálægt stólnum sem Bjarni sat á fannst eyrnalokkur. Annar eins eyrnalokkur var í eyra Susan. Í stofu og eldhúsi voru svo fleiri töskur.

Dómurinn segir handtöku Bjarna ekki tilhæfulausa vegna þeirra aðstæða sem blöstu við lögreglumönnum sem komu á vettvang, og hegðunar Susan fyrr um daginn. Eftir að Bjarni hafði verið handtekinn þótti lögreglumönnum hann ansi viðbragðslaus við aðstæðum. Hann hafi hvorki grátið né æst sig.

Bjarni lýsti því í viðtali við Vísi að hann átti sig engan veginn á því hvernig hann ætti að hegða sér. 

„Hver er uppskriftin að hegðun þegar þú veist ekki hvort eiginkona þín sé lifandi eða dáin eða sé að deyja? Hvernig á maður að haga sér? Getur þú sagt mér það, eða? Alla vega, það eru tveir prestar sem hafa ekki getað sagt mér það. En, þetta skrá þeir sem grunsamlegt,“ sagði Bjarni Hilmar.

Réttarmeinafræðingur útilokaði ekki kyrkingu

Lögmaður ríkisins vísaði í rökstuðningi sínum til krufningarskýrslu réttarmeinafræðings frá 14. júní, tíu dögum eftir nóttina örlagaríku. Í henni segir að dánarorsök hafi verið blóðrásarröskun vegna þrýstingstengdrar blóðrásarstöðvunar til heila vegna þrýstings á háls. Skýrslan segir að mögulegt sé að reka blóðrásarstöðvunina til ódæmigerðrar hengingar með sjálfsvígslegum hætti.

Réttarmeinafræðingurinn segir þó að ekki sé hægt að útiloka að Susan hafi verið kyrkt aftan frá. 

Í niðurstöðu dómsins segir að hvað sem líði um aðstæður og aðdraganda málsins þá liggi nægilega ljóst fyrir að tiltæk rannsóknargögn gefi ekki til kynna að Bjarni hafi „í reynd átt nokkurn þátt í sviplegu andláti eiginkonu sinnar“ og var rannsókn málsins gagnvart honum látin niður falla hálfu ári síðar. 

Öll gögn skoðuð

Bjarni var í haldi lögreglunnar í tæpan sólarhring. Hann var látinn undirgangast tvær skýrslutökur, líkamsleit, látinn gefa blóð og þvagsýni auk þess sem hann þurfti að afhenda föt sín. Í kjölfarið fór lögregla í gegn um öll gögn hans á síma og tölvu og leitaði í bíl hans og á heimili hans.

Að mati dómsins er ekki hægt að fallast á að rannsóknaraðgerðir lögreglu hafi verið tilhæfulausar eins og málið horfði við lögreglu. Sömuleiðis sé ekki hægt að fallast á það að lögreglu hafi ekki verið rétt að grípa til þeirra ráðstafana sem hún gerði í ljósi aðstæðna. Grunur hafi leikið á að Bjarni ætti mögulega þátt í andláti eiginkonu sinnar.

Einnig verði ekki fallist á það að sýnt hafi verið fram á að Bjarni hafi verið lengur í haldi en ástæða hafi verið til né að haldlagning muna hafi staðið lengur en þurfti. Að lokum sé þrátt fyrir frambuð Bjaran ekki unnt að staðreyna gegn framburði lögreglumanna að framkvæmd við handtöku eða flutning hans á lögreglustöð í handjárnum til að tryggja öryggi hafi verið óþarflega meiðandi. 

Með sama hætti telst ósannað að framkvæmd líkamsskoðunar á Bjarna hafi verið meiðandi eins og hann hélt fram.

Lítur ekki á sig sem fórnarlamb

Dómurinn gengst þó við því að það hafi verið afar þungbært fyrir Bjarna að vera meðhöndlaður sem sakborningur við þessar aðstæður. Það hafi valdið Bjarna sálrænum skaða sem hann hafi þurft að leita sér meðferðar við. Því sé rétt að honum verði greiddar skaðabætur.

„Sko, ég lít ekki á mig sem fórnarlamb. Hef ekki gert það,“ sagði Bjarni í viðtali við Vísi á dögunum 

„Susan var fórnarlamb. En, veistu það, kjarninn í þessari hegðun lögreglunnar er að það var gaman. Þetta var lögguleikur. CSI-þáttur. Loksins komust þeir í eitthvað krassandi. Ekki einhver fullur tekinn á bíl eða eitthvað innbrot. Heldur eru þau á vettvangi sem var skelfilegur og þau fara fram úr sér. Mörgum fannst „gaman“,“ sagði Bjarni.

Hann telur þetta lykilástæðu þess að hann lenti í þeirri stöðu að vera talinn hafa myrt konu sína.

Fréttin var síðast uppfærð og leiðrétt klukkan 14:14 laugardaginn 10. mars.


Tengdar fréttir

Leitar réttar síns vegna „ærumeiðandi aðdróttana“

Bjarni Hilmar Jónsson, sem bíður niðurstöðu í máli sínu gegn ríkinu vegna þess sem hann telur hafa verið ólögmætar þvingunaraðgerðir lögreglu eftir sjálfsvíg eiginkonu sinnar, hefur ákveðið að stefna Elísabetu Ýri Atladóttur bloggara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×