Enski boltinn

Upphitun: Stórleikur á Old Trafford

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Dagurinn í dag er enginn venjulegur laugardagur í enska boltanum. Strax í fyrsta leik dagsins er boðið upp á einn stærsta leik hvers tímabils, viðureign erkifjendanna í Manchester United og Liverpool.

Liðin hafa eldað grátt silfur í áratugi og er lítið um ástir þar á milli. Leikurinn í ár er einstaklega stór þar sem þessi lið eru í harðri baráttu um annað sætið í deildinni.

Fyrri leikur liðanna í vetur endaði með markalausu jafntefli á Anfield þar sem Jose Mourinho var mikið gagnrýndur fyrir að „leggja rútunni“ og spila of varnarsinnaðan leik.

Gylfi Þór Sigurðssonvísir/getty
Gylfi Þór Sigurðsson verður í eldlínunni í liði Everton sem fær nýliða Brighton í heimsókn á Goodison Park. Everton hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum í röð, sem voru báðir útileikir. Menn Sam Allardyce hafa ekki tapað átta af síðustu níu heimaleikjum sínum, eini tapleikurinn kom gegn Manchester United á Nýársdag.

Brighton kemur inn í þennan leik með 2-1 sigur á Arsenal í síðasta leik sem skilaði nýliðunum upp fyrir Everton í töflunni í 10. sætið, en bæði lið eru með 34 stig að loknum 29 umferðum.

Mávarnir hafa ekki tapað leik í úrvalsdeildinni í síðustu fimm leikjum. Þeir hafa hins vegar ekki haldið hreinu á þessu ári. Það hefur Everton ekki heldur og því ætti að vera næsta öruggt að það verða mörk í þessum leik.

Jóhann Berg Guðmundsson fer með liðsfélögum sínum í Burnley niður til Lundúna þar sem liðið mætir á Ludnúnaleikvanginn í heimsókn til West Ham.

Burnley hafði farið 11 leiki í deildinni án sigurs þar til Everton mætti í heimsókn á Turf Moor í síðustu umferð og lærisveinar Sean Dyche náðu loks að knýja fram sigur. Þeir mæta West Ham liði sem hefur tapað síðustu tveimur leikjum sínum 4-1.

Jóhann Berg Guðmundsson hefur verið frábær í liði Burnley undan farna leikivísir/getty
Með sigrnum í síðustu umferð náði Burnley í 40 stig í deildinni, þessari töfratölu sem á að tryggja að fall sé ómögulegt. Liðið er hins vegar aðeins 13 stigum frá fallsæti þegar átta umferðir eru eftir svo allt er enn mögulegt, þó það yrði hreint ótrúlegt ef þeir féllu úr þessu. West Ham hins vegar er enn í bullandi fallbaráttu. Liðið er í 14. sæti, jafnt Swansea í 13. og Huddersfield í 15. að stigum og aðeins þremur stigum frá fallsætinu.

Í lokaleik dagsins mætir Roy Hodgson með lærisveina sína í Crystal Palace til Antonio Conte og hans manna í Chelsea á Stamford Bridge. Chelsea þarf nauðsynlega á sigri að halda en Englandsmeistararnir eru fimm stigum frá Meistaradeildarsæti í fimmta sætinu.

Ernirnir í Palace þurfa ekkert minna á sigrinum að halda en þeir eru í 18. sæti með 27 stig líkt og Stoke í 19. sætinu. Þeir hafa hins vegar ekki unnið leik síðan 13. janúar þegar Burnley mætti á Selhurst Park. Þeir geta þó hugsað sér gott til glóðarinnar því eftir hörmulega byrjun á tímabilinu þar sem liðið hafði ekki skorað mark í fyrstu sjö leikjum sínum þá skoruðu þeir fyrstu mörkin sín og náðu í fyrsta sigur vetrarins þegar þessi lið mættust á Selhurst Park í október.

Leikir dagsins:

12:30 Manchester United - Liverpool, í beinni á Stöð 2 Sport

15:00 Everton - Brighton, í beinni á Stöð 2 Sport

15:00 Huddersfield - Swansea

15:00 Newcastle - Southampton

15:00 West Bromwich Albion - Leicester

15:00 West Ham - Burnley

17:30 Chelsea - Crystal Palace, í beinni á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×