Innlent

Sex banaslys á Suðurlandi það sem af er ári

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Sex banaslys hafa orðið í umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi það sem af er árinu, þrjú í umferðinni og þrjú af öðrum toga. Fólkið sem lést á Lyngdalsheiðinni í gær var ungt par frá Hollandi, karlmaður fæddur 1992 og kona fædd 1995 sem óku bíl sínum, lítilli sendiferðabifreið, til vesturs, frá Laugarvatni.

Virðist sem hann hafi farið yfir á öfugan vegarhelming og lent framan á vörubifreið sem ekið var úr gagnstæðri átt. Meiðsli ökumannsins í vörubifreiðinni og farþega voru ekki alvarleg. Allar aðstæður á slysstað voru góðar.

„Já, það var þurr og auður vegur, bjart og í rauninni ekkert sem blasir við á vettvangi sem skýrir orsök þess slyss“, segir Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn.

Árið hjá Lögreglunni á Suðurlandi hefur ekki byrjað vel því þar hafa orðið nokkur sex banaslys, þrjú í umferðinni, auk þess sem maður króknaði úr kulda í Öræfunum, maður sem talin er hafa farið í Ölfusá hefur ekki fundist og þá dó maður nýlega í íshelli í Hofsjökli.

„Í umferðinni erum við að sinna eftirliti eins og við mögulega getum. Þær hættur sem við erum með í náttúrunni eins og í þessum helli inn í Hofsjökli, þar höfum við varað við þeim hættum sem þar er að finna, það verður svolítið að treysta fólki að meta aðstæður inni á hálendinu því það er alveg ljóst að við náum aldrei að sinna þeim þrjátíu þúsund ferkílómetrum sem við höfum af landinu, þannig að við séum á öllum alls staðar, það er bara útilokað að það geti gerst. Betra eftirlit og fyrirbyggjandi aðgerðir er það sem okkur dreymir um“, segir Oddur enn fremur.

 


Tengdar fréttir

Banaslys á Lyngdalsheiði

Erlendir ferðamenn, karl og kona, létust í árekstri vörubifreiðar og fólksbifreiðar á Lyngdalsheiðarvegi í dag.

Parið sem lést var frá Hollandi

Parið sem lést í umferðarslysi á Lyngdalsheiðarvegi í gær var frá Hollandi, karlmaður fæddur 1992 og kona fædd 1995.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×