Umfjöllun, viðtöl og myndir: Fram - ÍBV 27-35 │ Bikarinn til Eyja

Stefán Árni Pálsson skrifar
Eyjamenn fjölmenntu í Laugardalshöll til þess að fagna með sínu liði
Eyjamenn fjölmenntu í Laugardalshöll til þess að fagna með sínu liði vísir/valgarður

ÍBV er bikarmeistari karla í handknattleik eftir að liðið vann góðan sigur á Fram í úrslitaleiknum í Laugardalshöllinni í dag. Leikurinn fór 35-27 og var í raun sigur Eyjamanna aldrei í hættu í síðari hálfleik. Agnar Smári Jónsson var frábær í liði ÍBV og skoraði hann tólf mörk í dag.

Til að byrja með var jafnt á öllum tölum og skiptum liðin á því að vera með eins marks forsystu fyrstu tuttugu mínútur leiksins.

Eyjamenn settu síðan í fimmta gír og fóru þeir Agnar Smári Jónsson og Aron Rafn Eðvarðsson heldur betur í gang. Eyjamenn náðu upp fjögurra marka forskoti undir lok hálfleiksins og var staðan 16-12 eftir 30 mínútna leik.

Þá hafði Agnar Smári skorað sjö mörk og Aron Rafn var með átta skot varin. Það var síðan greinilegt að ÍBV var með mun meira á tankinum í seinni hálfleik og var það greinilegt að leikur Fram gegn Selfyssingum tók sinn toll í gær. Sá leikur fór í framlengingu og vítakastkeppni. ÍBV keyrði í raun bara yfir Framara í seinni hálfleiknum og vann að lokum góðan sigur.
Af hverju vann ÍBV ?
Eyjamenn voru bara klárir og það gekk í raun allt upp hjá liðinu í dag. ÍBV spilaði fínan varnarleg og enn betri sóknarleik. Aron Rafn var flottur í rammanum og réðu í raun Framarar ekkert við þá í vörn og sókn.  

Hverjir stóðu upp úr?

Agnar Smári Jónsson var gjörsamlega stórkostlegur í dag og þá sérstaklega í fyrri hálfleik. Aron Rafn var fínn í markinu en góður varnarleikur skilaði liðinu í raun því forskoti sem það náði seinnihlutann af leiknum.

Hvað gekk illa?

Varnarleikur Fram var mjög dapur í raun og það gengur í raun ekki að liðið fái á sig 35 mörk í úrslitaleik. Fyrir aftan vörnina var ekki góð markvarsla og því áttu Framarar fá svör við frábæru ÍBV-liði.

Vísir/Valgarður

Agnar: Við erum þúsund manna her
„Ég var slakur í gær og skuldaði liðsfélögum mínum að standa mig í dag,“ segir Agnar Smári Jónsson, leikmaður ÍBV, eftir sigurinn.

„Við elskum svona augnablik og höfum fórnað ótrúlega miklu fyrir þetta. Það er ekkert hægt að tapa með þessa áhorfendur uppi í stúku. Þetta er ekkert eitt lið. Við erum þúsund manna her.“

Hann segist hafa vitað að Framararnir myndu þreytast í seinni hálfleiknum.

„Þegar menn þreytast þá kikkar vörnin okkar svakalega inn. Aron Rafn var síðan geggjaður í seinni hálfleik og okkur líður bara ógeðslega vel hérna í höllinni."

Vísir/Valgarður

Arnar: Vissum að þeir myndu þreytast
„Við mættum mjög klárir enda að spila við mjög gott lið sem eru að mínu mati með besta þjálfarann í íslenskum handbolta í dag,“ segir Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, eftir sigurinn.

„Við vissum alveg að þetta yrði hörkuleikur en við vissum líka að í okkar skipulagi og í okkar varnarleik þá myndu þeir þreytast þegar það myndi líða á leikinn.“

Arnar segir að leikmenn liðsins hreinlega elski að spila fyrir framan stuðningsmenn ÍBV.

„Stúkan var ótrúleg og svo nærandi og gefandi fyrir okkur. Í seinni hálfleik ætluðum við bara að halda áfram að gera okkur og bíða eftir því að þeir færu að þreytast.“

Arnar og strákarnir ætla að fagna titlinum í kvöld.

„Við tökum góða ferð í Herjólf og svo verður tekið vel á móti okkur. Svo verður þessu vel fagnað í kvöld,“ segir Arnar en í því andartaki komu nokkrir leikmenn ÍBV og helltu nokkrum lítrum af vatni fyrir kallinn.

Vísir/Valgarður

Guðmundur: Hrikalega stoltur af mínu liði
„Auðvitað var erfitt fyrir okkur að spila þennan hörkuleik í gærkvöldi og svo þennan úrslitaleik í dag. Þetta telur allt saman og við vorum orkulitlir í seinni hálfleik,“ segir Guðmundur Helgi Pálsson, þjálfari Fram, eftir tapið.

„Ég er hrikalega stoltur af mínu liði. Þeir eiga að bera höfuðið hátt og vera glaðir að hafa komist hingað. Það tekur aldrei neinn af okkur.“

Guðmundur óskar Eyjamönnum innilega til hamingju með titilinn.

„Þeir voru bara frábærir í dag og unnu leikinn sannfærandi. Skytturnar þeirra voru að skora eins og þeir vildu og svo hjá okkur var þetta stöngin inn, stöngin út. Ég hef tröllatrú á þessum drengjum og það sem þeir þurfa að læra er að hafa trú á sjálfum sér. Það er stórt atriði í íþróttum.“

Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður
Vísir/Valgarður

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.