Erlent

„Barnaverksmiðjupabbinn“ réttmætur faðir barnanna þrettán

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögmaður Mitsutoki Shigeta greindi fréttamönnum frá úrskurðinum fyrir utan dómshúsið í morgun. Pabbinn var sjálfur ekki á svæðinu.
Lögmaður Mitsutoki Shigeta greindi fréttamönnum frá úrskurðinum fyrir utan dómshúsið í morgun. Pabbinn var sjálfur ekki á svæðinu. Vísir/Getty
Dómstóll í Bangkok, höfuðborg Tælands, staðfesti nú í morgun að japanskur maður sem eignaðist 13 börn með tælenskum staðgöngumæðrum væri réttmæður faðir barnanna. Úrskurðurinn mun að öllum líkindum leiða til þess að maðurinn, hinn 28 ára gamli Mitsutoki Shigeta, fari fram á fullt forræði yfir börnunum.

Mál Shigeta hefur verið á milli tannanna á fólki allt frá því árið 2014 þegar í ljós kom að hann hafi alls eignast rúmlega tylft barna með staðgöngumæðrum í Tælandi.

Fréttaskýrendur tala alla jafna um málið sem „barnaverksmiðjuna“ en málið varð til þess að Tæland bannaði útlendingum að eignast börn með þarlendum staðgöngumæðrum.

Shigeta var ekki viðstaddur dómsuppkvaðninguna í dag, þegar tilkynnt var að mæðurnar höfðu fyrirgert rétti sínum á forræði yfir börnunum. Í tilkynningu frá dómstólnum í Bangkok kemur fram að ekkert sé því til fyrirstöðu að viðurkenna Shigeta sem réttmætan föður barnanna.

Um tíma var þó óttast að sá japanski væri meðlimur mansalshrings og hefði í hyggju að selja börnin. Hvað annað gæti vakað fyrir manni sem eignast svona mörg börn með staðgöngumæðrum, spurðu Tælendingar sig. Shigeta var til að mynda undir smásjá Interpol fyrst eftir að mál hans kom upp og gerð húsleit í íbúð hans í Bangkok. Þar fann lögreglan níu ungabörn, aðstoðarkonur og þungaða staðgöngumóður.

Shigeta stakk af frá Tælandi eftir húsleitina en var síðar kærður af tælenska félagsmálaráðuneytinu sem dró forræði hans yfir börnunum í efa. Því máli lauk svo með sigri hans í dag sem fyrr segir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×