Erlent

Haldlögðu 1,6 tonn af metamfetamíni í Indónesíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglan segir að þeim hafi borist ábending frá yfirvöldum í Kína og Tælandi og að fíkniefnin hafi verið flutt um borð í skipi frá Búrma, eða Mjanmar, sem var dulbúið sem fiskiskip.
Lögreglan segir að þeim hafi borist ábending frá yfirvöldum í Kína og Tælandi og að fíkniefnin hafi verið flutt um borð í skipi frá Búrma, eða Mjanmar, sem var dulbúið sem fiskiskip. Vísir/AFP
Lögregla Indónesíu hefur lagt hald á allt að 1,6 tonn af metamfetamíni sem fannst um borð í skipi við eyjuna Batam í dag. Lögreglan segir slíkt magn aldrei hafa fundist í landinu áður en fyrr í mánuðinum fann lögreglan rúmt tonn af metamfetamíni.

Joko Widodo, forseti Indónesíu, hefur heitið því að berjast gegn flutningi metamfetamíns til landsins. Lögreglan segir að þeim hafi borist ábending frá yfirvöldum í Kína og Tælandi og að fíkniefnin hafi verið flutt um borð í skipi frá Búrma, eða Mjanmar, sem var dulbúið sem fiskiskip.

Í samtali við Reuters segir yfirmaður fíkniefnalögreglu Indónesíu að áætlað sé að um 1,6 tonn sé að ræða. Hann segir einnig að umræddu skipi hafi reglulega verið siglt til Ástralíu og um landhelgi Indónesíu. Verið er að rannsaka hvert ferð skipsins var heitið.



Fíkniefnalöggjöf Indónesíu er einhver sú strangasta í heimi og geta fíkniefnasmyglarar verið dæmdir til dauða.

Búrma, ásamt Taílandi og Laos, tilheyrir hinum svokallað Gullna þríhyrningi þar sem framleiðsla og flutningur fíkniefna eins að metamfetamíns blómstrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×