Innlent

Endurskoða þarf Off venue-hluta Airwaves ef hátíðin á að lifa

Birgir Olgeirsson skrifar
Gestir Airwaves í Hörpu.
Gestir Airwaves í Hörpu. Vísir/Ernir
Endurskoða þarf Off venue-fyrirkomulagið á Iceland Airwaves ef hátíðin á að lifa. Þetta sagði Ísleifur Þórhallsson í Harmageddon í morgun en hann er framkvæmdastjóri Senu Live sem hefur tekið yfir tónlistarhátíðina Iceland Airwaves.

Ísleifur mun verða framkvæmdastjóri hátíðarinnar sem hefur skilað miklu tapi undanfarin ár og sagði Ísleifur nokkra þætti eiga þátt í því.

Hann nefndi fyrst að samkeppnin á Íslandi þegar kemur að tónleikahaldi sé gífurleg. Tónlistarhátíðin Secret Solstice er metnaðarfull og flott tónlistarhátíð sem tekur mikið til sín að sögn Ísleifs og þá eru smærri hátíðir á borð við Sónar einnig fyrirferðarmiklar. Sena Live hefur einnig verið öflugt í tónleikahaldi og varð algjör sprenging í því með tilkomu tónlistarhússins Hörpu, samhliða því að tónlistarmenn höfðu aðaltekjur sínar af tónleikahaldi eftir að plötusala dó.

Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live sem hefur tekið yfir Iceland Airwaves.Vísir/Eyþór
Ísleifur sagði ekki annað koma til greina en að skoða Off venue-hluta Iceland Airwaves en gífurleg aukning hefur orðið á þeim hluta hátíðarinnar. Þegar talað er um Off venue er verið að meina tónleika sem haldnir eru samhliða hátíðinni en eru ekki hluti af henni og þarf í flestum tilvikum ekki að borga inn á slíka tónleika. Á þessum Off venue-tónleikum spila hljómsveitir sem eru bókaðar á Airwaves.

Ísleifur sagði að með þessi fyrirkomulagi væri búið að kenna fólki að það geti upplifað langflesta af þeim tónlistarmönnum sem eru á Airwaves án þess að borga sig inn á hátíðina.

80 prósent Off venue

Á síðustu hátíð voru fimmtíu Off venue-staðir á móti þrettán opinberum tónleikstöðum Airwaves. Það þýðir að 80 prósent af tónleikastöðum yfir Airwaves-helgina tengjast hátíðinni ekki beint.

„Það er mjög vont augljóslega og gengur ekkert,“ sagði Ísleifur og bætti við að hátíðin sé þannig að búa til mikið af tekjum fyrir aðila úti í bæ en fái ekkert inn í staðinn.

Ísleifur sagðist vilja endurskoða þetta fyrirkomulag og gæta þess að það verði sanngjarnt gagnvart bæði hátíðinni og tónlistarmönnum.

Hljómsveitin Hjaltalín á Off venue-tónleikum á Bryggjunni.Vísir/Ernir

Vilja bara koma út á sléttu

Hann sagði langflesta vilja að hátíðin lifi áfram og tók fram að Sena Live hafi einungis vonir um að geta skilað hátíðinni á sléttu á næsta ári.

Ísleifur sagði það fyrirkomulag tíðkast erlendis að ef tónlistarmaður er bókaður í einhverja borg þá kveði samningsskilyrði á um að tónlistarmaðurinn spili ekki í borginni þrjátíu daga fyrir og þrjátíu dögum eftir tónleikana.

Ísleifur sagðist skilja það vel að Airwaves sé nokkurs konar vertíð fyrir íslenska tónlistarmenn en þeir verði einnig að átta sig á að ef hátíðin á að lifa þurfi hún að skila tekjum.



Hátíðin færð aftur til upprunans

Flugfélagið Iceland Air efndi til Iceland Airwaves árið 1999 til að laða ferðamenn til Íslands yfir veturinn. Var það meginmarkmiðið með hátíðinni og að kynna íslenska tónlistarmenn erlendis. Ísleifur sagði að í augum Senu Live eigi að færa hátíðina aftur til upprunans og að hún þjóni þeim tilgangi að kynna nýja og spennandi tónlistarmenn.

Huga þurfi að því hvað eigi erindi inn á hátíðina og hvað ekki. Ísleifur vonaðist eftir að geta mótað heildstæða stefnu fyrir hátíðina þar sem lögð verður áhersla á íslenska tónlist og upprennandi erlenda tónlistarmenn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×