Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 26-25 │Stjarnan ekki í úrslitakeppnina

Einar Sigurvinsson skrifar

Valur sigraði Stjörnuna með einu marki, 26-25, í Valshöllinni í kvöld. Síðasta mark leiksins skoraði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir fyrir Val og var það í fyrsta sinn í leiknum sem Valur komst yfir.
 
Leikurinn byrjaði rólega og eftir 8 mínútna leik hafði hvort lið aðeins skorað tvö mörk. Stjarnan keyrði þá aðeins upp hraðann í sóknarleik sínum og náði í kjölfarið þriggja marka forystu, 3-6. Stjarnan hélt sinni forustu út hálfleikinn.
 
Í fyrri hálfleik komst Stjarnan mest fimm mörkum yfir Val, en á 28. mínútu skoraði Sólveig Lára og staðan orðin 11-16. Valur náði þá að klóra í bakkann og skoruðu næstu tvö mörk. Staðan í hálfleik því 13-16, gestunum í Stjörnunni í vil.Stjarnan var enn með góð tök á Val í upphafi síðari hálfleiksins og á 38. mínútu var munurinn aftur orðinn fimm mörk, 15-20. Þá fór Valur að þétta vörnina sína og gekk Stjörnunni illa að skora úr uppstilltum sóknum.
 
Á 38. mínútu náði Stjarnan aftur fimm marka forystu, 15-20. Aðeins sex mínútum síðar var Valur búinn að skora fimm mörk á meðan Stjarnan skoraði aðeins eitt. Munurinn því orðinn eitt mark, 20-21 og ljóst að lokamínútur leiksins yrðu spennandi.
 
Þegar ein mínúta var eftir var staðan jöfn 25-25, en þá missir Stjarnan boltann klaufalega frá sér. Anna Úrsúla Guðmundsdóttir rauk upp völlinn og kom Val yfir í fyrsta sinn í leiknum. Stjörnunni tókst ekki að skapa sér færi og var mark Önnu því það síðasta í leiknum. Lokatölur 26-25, eftir ævintýralegar lokasekúndur í Valshöllinni.Af hverju vann Valur leikinn?
Þetta var karakter sigur hjá Val. Þrátt fyrir að hafa verið undir nær allan leikinn, var aldrei að sjá neina uppgjöf á liðinu. Valsliðið leit út fyrir að vilja þennan sigur meira í kvöld og uppskáru þær því stigin tvö að lokum.

Valur er með virkilega gott varnalið. Liðið var lengi í gang en um leið og vörnin fór að smella gekk Stjörnunni virkilega illa að skapa sér færi. Hverjir stóðu upp úr?
Anna Úrsúla var frábær í síðari hálfleik fyrir Val og skoraði 6 mörk úr 6 skotum. Þar af sigurmarkið í lokin. Lina Melvik átti einnig mjög góðan leik í marki Vals, með rúmlega 40 prósent markvörslu og 11 varða bolta.

Ramune Pekarskyte og Hanna G. Stefánsdóttir í Stjörnunni voru markahæstar á vellinum með 7 mörk. Þar af skoraði Hanna 5 mörk úr víti og var með 100 prósent nýtingu á punktinum.
 
Hvað gekk illa?
Stjörnunni gekk illa að skapa sér færi um miðbik síðari hálfleiksins. Ramune Pekarskyte þurfti oftar en ekki að enda sóknir liðsins á erfiðum skotum og endaði hún því með 44 skotnýtingu.
 
Hvað gerist næst?
Næsta sunnudag, 25. febrúar, á Valur útileik gegn Fram. Liðin eru hnífjöfn á toppi Olís-deildarinnar og má því gera ráð fyrir hörkuleik í Safamýrinni.
 
Mánudaginn 26. febrúar tekur Stjarnan á móti Haukum. Mikilvægur leikur fyrir Hauka þar sem hin tvö toppliðin, Valur og Fram, mætast sín á milli kvöldið áður.

Ágúst Þór, þjálfari Vals. Vísri

Ágúst Þór: Það er líka spenna í kvennaboltanum
„Bara góð tilfinning að hafa náð í tvö stig. Þetta var auðvitað gríðarlega erfiður leikur og við vissum að hann yrði það. Þetta var kannski síðasti sénsinn hjá Stjörnunni að komast í úrslitakeppnina og við vissum að þær yrðu grimmar, sem þær voru,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals eftir sigurinn gekk Stjörnunni í kvöld.„Varnarleikurinn var lélegur í fyrri hálfleik. Við fáum á okkur 16 mörk og erum með litla markvörslu. En við sýndum mikinn karakter og það var mikil seigla í þessu, að ná að koma til baka og vinna þennan leik.Útlitið var ekki bjart hjá Val á tímabili í leiknum. Þegar á 22 mínútur eru eftir var Stjarnan með fimm marka forystu.„Við vorum bara að gera of mikið af mistökum og klára færin illa. Dröfn var okkur erfið. En við fengum góða stöðu í seinni hálfleiknum, í stöðunni sjö á móti sex. Þá vorum við að opna þær vel og náðum að sigla þessu heim.“„Þetta var bara mikil spenna. Það er nú bara þannig að það er líka spenna í kvennaboltanum, þá hann sé lítið sýndur hjá ykkur í Seinni bylgjunni.“Efri hluti Olís-deildarinnar er jafn en í næstu umferð fer fram hörkuleikur milli tveggja toppliða, Vals og Fram.„Það er klárt mál að þetta er bara jafn. Við eigum Fram í næsta leik og þær eru gríðarlega sterkar. Við erum náttúrlega án okkar, kannski besta leikmanns, en mætum Fram og reynum að gera okkar besta,“ sagði sáttur Ágúst Þór að lokum.Halldór Harri: Maður fer ekkert í sumarfrí á þessum tíma

„Maður er svekktur. Við áttum að fá eitthvað út úr þessu. Svo einfalt er það,“ sagði Halldór Harri Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar í leikslok.


Stjarnan var yfir nær allan leikinn og var Halldór á því að sitt lið hefði átt að klára leikinn í kvöld.


„Seinasta korterið erum við að fara illa með færin. Við fáum ágætis möguleika en skjótum beint í markmanninn og erum að gera okkur erfitt fyrir. Seinustu mínúturnar erum við síðan bara slakar.“„Varnarleikurinn var bara fínn en sóknarleikurinn og skotnýtingin var bara léleg í seinni hálfleik.“Eftir leikinn í kvöld er ljóst að Stjarnan er örugg með 5. sæti deildarinnar og getur hvorki farið ofar né neðar. Halldór segir að þrátt fyrir það verði farið eins inn í síðustu leiki tímabilsins og þá fyrstu, til að vinna.
 
„Þetta verður bara svipað og það hefur alltaf verið. Núna förum við í næsta leik og ætlum að vinna þann leik. Við gerum þetta bara af krafti, maður fer ekkert í sumarfrí á þessum tíma,“ sagði Halldór Harri að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.