Erlent

Aðstoðarmaður Netanyahu sakaður um að reyna að múta dómara

Kjartan Kjartansson skrifar
Netanyahu er meðal annars sakaður um að hafa reynt að gera samkomulag við útgefanda dagblaðs um hagstæða umfjöllun um sig.
Netanyahu er meðal annars sakaður um að hafa reynt að gera samkomulag við útgefanda dagblaðs um hagstæða umfjöllun um sig. Vísir/AFP
Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, neitaði í dag að aðstoðarmaður hans hefði reynt að múta dómara til að fá rannsókn á eiginkonu ráðherrans fellda niður. Kona Netanyahu er grunuð um sjálftöku á opinberu fé.

Washington Post segir að ísraelskur blaðamaður hafi fyrst greint frá málinu en lögreglan hafi síðar staðfest frásögn hans að hluta til, án þess þó að nafngreina forsætisráðherrann eða aðstoðarmann hans.

Nir Hefetz, fjölmiðlaráðgjafi Netanyahu til fjölda ára, er sagður hafa komið þeim skilaboðum til dómara að hún fengi stöðu ríkissaksóknara ef hún samþykkti að fella niður rannsóknina á Söru Netanyahu, konu forsætisráðherrans, árið 2015. Hefetz neitar því algerlega.

Lögreglan sagði í yfirlýsingu að rannsókn hefði farið fram á atviki þar sem grunur lék á að einhver hefði nálgast háttsettan embættismann og boðið aðstoð við stöðu ríkissaksóknara í skiptum fyrir samkomulag eða loforð varðandi sakamál.

Vika er liðin frá því að lögreglan mælti með því að Netanyahu yrði ákærður fyrir spillingu. Hann er meðal annars sakaður um að hafa þegið gjafi að andvirði milljóna króna frá milljarðamæringum í skiptum fyrir pólitíska greiða.


Tengdar fréttir

Kröfðust afsagnar Netanyahu

Mótmælendur, milli þúsund og tvö þúsund talsins, komu saman í Tel Avív í Ísrael í dag

Netanyahu vísar ásökunum á bug

Lögreglan í Ísrael hefur forsætisráðherrann grunaðan um að flækjast í mútumál og sagði í gær að rétt væri að ákæra hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×