Erlent

Telja spillingar­á­sakanir gegn seðla­banka­stjóra geta verið hluta af á­róðurs­her­ferð

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn gerðu húsleit á heimili og skrifstofu Ilmars Rimsevics um helgina.
Lögreglumenn gerðu húsleit á heimili og skrifstofu Ilmars Rimsevics um helgina. Vísir/AFP
Lettneska varnarmálaráðuneytið segir hugsanlegt að ásaskanir um spillingu sem leiddu til þess að seðlabankastjóri landsins var handtekinn séu liður í meiriháttar áróðursherferð sem sé ætlað að draga úr trausti á landið og hafa áhrif á kosningar þar í haust.

Ilmars Rimsevics, seðlabankastjóri Lettlands, var settur í gæsluvarðhald á sunnudag. Hann er grunaður um að hafa þegið mútur. Þá hafa komið fram ásakanir um að ABLV-bankinn, þriðji stærsti lánveitandi lettneska ríkisins, hafi gerst sekur um peningaþvætti og hjálpað Norður-Kóreu að komast undan refsiaðgerðum.

Í yfirlýsingu segir varnarmálaráðuneyti landsins að þær ásakanir gætu verið runnar undan rifjum viðamikillar áróðursherferðar utanaðkomandi aðila, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Vitna til reynslu Frakka, Þjóðverja og Bandaríkjamanna

Ekki kemur fram í yfirlýsingunni hver gæti staðið þar að baki en ráðuneytið segir að herferðinni svipi til þeirra sem hafa átt sér stað fyrir kosningar í Frakklandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum undanfarið.

Bandaríska leyniþjónustan er fullviss um að Rússar hafi staðið að baki tilraunum til að hafa áhrif á forsetakosningarnar þar árið 2016. Þrettán Rússar voru ákærðir á föstudag, grunaðir um að hafa tekið þátt í áróðursherferð Rússa á samfélagsmiðlum. Rússum hefur einnig verið kennt um tilraunir til afskipta af forsetakosningum í Frakklandi í fyrra.

Varnarmálaráðuneytið Lettlands telur að herferðin haldi áfram og hún beinist líklega að því að hafa áhrif á innanríkismál landsins og þingkosningar sem fara fram í október. Tilgangurinn sé að draga upp þá mynd að Lettar séu óáreiðanlegir bandamenn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×