Skoðun

Neyð

Eyþór Arnalds skrifar
Staðan á húsnæðismarkaði í borginni er orðin grafalvarleg. Andvaraleysi í lóða- og húsnæðismálum hefur ýtt íbúum Reykjavíkur yfir í önnur sveitarfélög og sumir eru án úrræða. Lítið er til af húsnæði til leigu og verðið er yfir þolmörkum fyrir fjölmargt fólk. Dæmi eru um 50m2 íbúðir sem leigðar eru á 200 þúsund krónur á mánuði. Útgreidd lágmarkslaun eru 223 þúsund krónur svo það má ljóst vera að dæmið gengur ekki upp.

Fyrstu kaup ungs fólks eru erfiðari vegna húsnæðisskortsins og hefur Íbúðalánasjóður bent á þann möguleika að ungt fólk búi 5 árum lengur í foreldrahúsum en það kýs. Slík staða er ekki fólki bjóðandi.

Í fyrra voru aðeins 322 íbúðir fullkláraðar í Reykjavík og er það 51% færri íbúðir en árið á undan. Í Mosfellsbæ voru byggðar fleiri íbúðir en í borginni þrátt fyrir að Mosfellsbær sé miklu minna sveitarfélag en Reykjavík.

Á síðustu fjórum árum hefur Reykjavík setið eftir á meðan önnur sveitarfélög hafa vaxið. Ekkert bólar á efndum loforða um þúsundir leiguíbúða sem sett voru fram fyrir síðustu kosningar.



Húsnæðislausum hefur fjölgað um 95%

Sárasta birtingarmynd ástandsins á húsnæðismarkaði er svo staða húsnæðislausra. Á síðustu 5 árum hefur húsnæðislausum fjölgað um 95% og hefur staðan aldrei verið verri. Á síðasta ári voru 349 manns sem töldust heimilislaus eða utangarðs í Reykjavík, en árið 2012 voru það 179 manns. Þetta er mjög alvarleg þróun á tiltölulega stuttum tíma. Það er ljóst að húsnæðisvandann þarf að leysa.

Reykjavík á mikið land og getur úthlutað lóðum á ýmsum stöðum í borginni ef vilji er til. Verði ég borgarstjóri heiti ég því að framboð á búsetukostum verði stóraukið í borginni svo Reykjavík verði valkostur á ný. Möguleikarnir eru margir.

Ljúka þarf uppbygginu í Úlfarsárdal, leyfa íbúabyggð í Örfirisey, Geldinganesi og Keldum svo dæmi séu tekin. Vilji er allt sem þarf.

Höfundur mun leiða lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fyrir næstu borgarstjórnarkosningar




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×