Skoðun

Ísland hvatt

Siv Friðleifsdóttir skrifar
Umboðsmaður barna í Noregi, Anne Lindboe, stígur fram í norskum fjölmiðlum í gær 20. febrúar og brýnir Alþingi til dáða vegna frumvarps gegn umskurði ungra drengja. Hún segist halda að sama mál verði samþykkt í Noregi, en er óviss um hvenær, það er til bóta að önnur lönd ryðji brautina og því „heier jeg på Island“ (hvet ég Ísland).

Lindboe segist styðja íslenska frumvarpið af nokkrum ástæðum. Meðal annars vegna þess að norskir heilbrigðisstarfsmenn hafi sagt skýrt að umskurður drengja sé sársaukafullur, geti haft aukaverkanir og að vitað er að nokkuð sé um að karlmenn (flere menn) hafi upplifað vandamál og áskoranir í kjölfar umskurðar. Einnig dregur hún fram Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem skýrt kveður á um að börn eigi rétt á að hlustað sé á þeirra rök og að taka eigin ákvarðanir. Öll rök Lindboe koma fram í íslenska frumvarpinu, en það flytja þingmenn fjögurra flokka, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Inga Sæland, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ólafur Ísleifsson, Jón Þór Ólafsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Björn Leví Gunnarsson.

Eins og gefur að skilja hreyfir mál af þessu tagi við tilfinningum, vekur viðbrögð og kallar á grundvallarafstöðu í hjarta hvers manns. Hvað má gera börnum og hvað ekki? Hvað er gott fyrir þau og hvað ekki? Málið beinist að réttindum barna en er ekki beint gegn trúarbrögðum þótt margir kjósi að setja það í þann búning. Vegna viðbragða hefur forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, brugðist réttilega við, sagst stoltur af Alþingi og að ekki eigi að bogna undan því þó mál af þessu tagi kveiki viðbrögð.

Hugarfarsbreytingar hafa átt sér stað varðandi réttindi barna. Ein birtingarmynd þess er samstaða um tilkomu embætta Umboðsmanna barna á öllum Norðurlöndunum og víðar. Þessir sömu umboðsmenn gáfu sameiginlega út yfirlýsingu gegn umskurði ungra drengja árið 2013. Það er von mín að íslenska þingmálið verði vatn á myllu næstu hugarfarsbreytingar og að eftir nokkur ár verði talið sjálfsagt að vernda unga drengi gegn umskurði á Norðurlöndum og vonandi víðar.

Höfundur er fyrrverandi alþingismaður




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×