Enski boltinn

„Arsenal þarf að hugsa eins og United“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Arsene Wenger.
Arsene Wenger. vísir/getty
Arsenal kemst aðeins í Meistaradeildina ef liðið vinnur Evrópudeildina. Þetta er mat Roberts Pires, fyrrverandi leikmanns Arsenal sem spilaði með liðinu á gullaldarárum þess undir stjórn Arsene Wenger.

Skytturnar eru í fínum málum í Evrópudeildinni eftir stórsigur á Östersund í fyrri leik liðanna á útivelli í 32 liða úrslitum keppninnar en heima fyrir er meira basl í gangi.

Arsenal er í sjötta sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fimm stigum á eftir Tottenham sem er í fimmta sæti en lengra er í Meistaradeildarsæti þegar styttist í annan endann á úrvalsdeildinni.

„Evrópudeildin verður að vera sett í forgang núna hjá Arsenal. Markmið liðsins verður að vera það sama og hjá Manchester United á síðustu leiktíð. Það setti gott fordæmi,“ segir Pires í viðtali við The Sun.

„United vann Evrópudeildina og fór beint í Meistaradeildina. Arsenal verður að hafa sama hugarfar. Þetta er titill og bara mjög góður titill. Það er mikilvægt fyrir Arsenal að komast í Meistaradeildina.“

„Því miður er erfitt að sjá Arsenal ná einu af efstu fjórum sætunum og komast þannig í Meistaradeildinni. Ég vil sjá Arsenal þar en það er varla hægt með Liverpool, Tottenham og Chelsea öll fyrir ofan það,“ segir Robert Pires.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×