Erlent

Boko Haram gæti hafa rænt fjölda stúlkna

Kjartan Kjartansson skrifar
Boko Haram rændi 219 stúlkum úr þorpinu Chibok árið 2014. Árásin nú átti sér stað í Dapchi, norðvestur af Chibok.
Boko Haram rændi 219 stúlkum úr þorpinu Chibok árið 2014. Árásin nú átti sér stað í Dapchi, norðvestur af Chibok. Vísir/EPA
Fleiri en hundrað stúlkna er saknað eftir að liðsmenn hryðjuverkasamtakanna Boko Haram ræðust á heimavistarskóla í Nígeríu á mánudagskvöld. Nemendur og starfsmenn skólans flúðu áður en árásin hófst en fjöldi þeirra hefur ekki skilað sér aftur.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að yfivöld tali ekki um mannrán enn sem komið er. Um helmingur stúlknanna sem flúði og faldi sig í nærliggjandi þorpum hafi skilað sér. Rúmlega hundrað hafa hins vegar ekki komið í leitirnar ennþá.

Öryggisveitir kemba nú svæðið í leit að stúlkunum. Eitt vitni sagði BBC að stúlkurnar hefðu verið numdar á brott í vörubíl.

Fjögur ár eru liðin frá því að Boko Haram rændi fleiri en 270 stúlkum úr skóla í bænum Chibok. Árásin nú átti sér stað í Dapchi, um 275 kílómetra norðvestur af Chibok. Liðsmenn samtakanna réðust inn í bæinn, hleyptu af byssuskotum og sprengdu sprengjur. Nemendur og starfslið skólans flúði, sumir allt að þrjátíu kílómetra í burtu.


Tengdar fréttir

Chibok-stúlkurnar sameinast fjölskyldum sínum

Gleði ríkti á endurfundum 82 stúlkna sem var rænt frá þorpinu Chibok í Nígeríu fyrir þremur árum með foreldrum þeirra í dag. Enn eru þó fleiri en hundrað stúlkur frá þorpinu í haldi skæruliðasamtakanna Boko Haram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×