Viðskipti innlent

Hertar kröfur stuðla að samþjöppun

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Jón Daníelsson segir hættuna við strangar eiginfjárkröfur vera þá að einhæfni og samþjöppun í atvinnulífinu aukist. Lítil fyrirtæki hafi minna aðgengi að lánsfé en þau hefðu annars haft.
Jón Daníelsson segir hættuna við strangar eiginfjárkröfur vera þá að einhæfni og samþjöppun í atvinnulífinu aukist. Lítil fyrirtæki hafi minna aðgengi að lánsfé en þau hefðu annars haft. Vísir/Vilhelm
Hættan við strangar eiginfjárkröfur er sú að atvinnulífið verði of einhæft sem magnar upp efnahagssveiflur. Markmið eftirlitsstofnana ætti fyrst og fremst að miða að því að jafna sveiflur og dreifa áhættu í atvinnulífinu. Hertar kröfur um eigið fé banka ganga í þveröfuga átt. Þetta er mat Jóns Daníelssonar, hagfræðings og forstöðumanns rannsóknarstofnunar um kerfislæga áhættu á fjármálamörkuðum við London School of Economics.

„Mér hefur fundist stjórnvöld hafa gengið allt of langt í að tryggja eiginfjárstöðu bankanna í stað þess að huga að því hvernig atvinnulíf við viljum hafa,“ segir Jón í samtali við Markaðinn. Hátt hlutfall eigin fjár banka geti aldrei, svo öruggt sé, komið í veg fyrir að bankar verði gjaldþrota.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir ekki rétt að hér á landi séu gerðar mjög miklar kröfur til banka um eiginfjárauka borið saman við önnur ríki. Engu að síður séu skýrar ástæður fyrir því að gerðar séu ríkar þjóðhagsvarúðarkröfur til íslensku bankanna. „Það eru ákveðnir undirliggjandi þættir sem gera lánveitingar á Íslandi áhættusamari en í mörgum öðrum ríkjum,“ segir aðstoðarforstjórinn.

Fram kom í úttekt Markaðarins í síðustu viku að þrátt fyrir að gæði eigna íslensku viðskiptabankanna þriggja – Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans – væru meiri en víðast hvar annars staðar væri eiginfjárhlutfall bankanna með því hæsta í Evrópu og vogunarhlutfallið, sem reiknast sem eigið fé sem hlutfall af heildareignum, umtalsvert hærra en hlutfall evrópskra banka.

Jón Daníelsson, hagfræðingur við LSE

Skekkja markaðinn

Jón Daníelsson segir að hertar eiginfjárkröfur, samkvæmt Basel-reglunum sem innleiddar voru í kjölfar fjármálakreppunnar 2008, hafi íþyngt bönkum allan heim. Þær hafi auk þess gert bönkum erfiðara um vik að finna leiðir til þess að láta eiginfjárhlutfallið líta hærra út en það er í raun og veru.

„Vandamálið við hertum eiginfjárkröfum,“ nefnir hann, „er það að því strangari sem kröfurnar eru, þeim mun dýrara er fyrir banka að veita lán. Eigið fé banka er tiltölulega dautt fjármagn sem þeir geta til dæmis ekki lánað út. Bankarnir verða því af hagnaði með því að liggja á eigin fé sem dregur auk þess úr þátttöku þeirra í efnahagslegri starfsemi.“

Eiginfjárreglurnar geri það að verkum að bankarnir leitist í auknum mæli við að lána til verkefna og starfsemi sem sé þeim hvað arðbærust. Önnur svið sitji á hakanum. Afleiðingin geti orðið sú að sum svið atvinnulífsins búi við ofgnótt af lánsfé á meðan önnur svið skortir lánsfé.

„Þetta er spurning sem stjórnvöld í Evrópulöndum hafa þurft að spyrja sig: Hversu hátt má eiginfjárhlutfall banka vera án þess að það fari að bitna á hagvexti og dragi úr fjölbreytni í atvinnulífi? Hættan er sú að háar eiginfjárkröfur stuðli að samþjöppun í atvinnulífinu. Að lítil fyrirtæki hafi minna aðgengi að lánsfé en þau hefðu annars haft og að meira sé lánað til stærri fyrirtækja eða fasteignakaupa, svo dæmi séu tekin.

Eiginfjárreglurnar geti þannig haft ráðandi áhrif á það hvert lánsfé banka leitar.

Lendingin á meðal stefnusmiða í Evrópu virðist ætla að vera sú að eigin­fjárkröfur verða ekki hertar mikið meira en nú er orðið. Það hefur einnig verið kvartað yfir því hve breytilegar reglurnar eru. Að það sé alltaf verið að hræra í þeim. Svo virðist sem lending sé einnig að nást í þeim efnum þannig að það liggi ljóst fyrir til lengri tíma hvernig eigið fé banka á að vera reiknað út og hvað eiginfjárhlutfallið skal vera hátt,“ útskýrir Jón.

Hann segir að hátt hlutfall eigin fjár banka geti aldrei, svo öruggt sé, komið í veg fyrir að bankar verði gjaldþrota. „Það getur ávallt komið það stórt áfall að bankar fari á hausinn, sama hversu miklu eigin fé þeir búa yfir. En kostnaðurinn við að hafa mikið eigið fé er einnig gríðarlegur. Þess vegna þarf að ná fram eins konar jafnvægi á milli þess hversu mikla áhættu bankar eiga að taka til þess að geta þjónað atvinnulífinu og þess að eiginfjárstaða bankanna sé trygg,“ segir Jón.

Of mikið einblínt á fortíðina

„Mér hefur fundist eins og stjórnvöld á Íslandi séu – með því að setja strangari reglur en gilda í Evrópu – að reyna að byrgja brunninn eftir að barnið er dottið ofan í hann. Regluverkið hér á landi miðast að mínu mati ekki við framtíðina, heldur við það eitt að koma í veg fyrir að fjármálahrunið 2008 geti orðið. En það gerðist. Í stað þess að reyna að búa til regluverk til þess að koma í veg fyrir að bankarnir eins og þeir voru fyrir tíu árum geti farið í þrot, þá ættu stjórnvöld að reyna að tryggja að bankakerfið sem við búum við í dag verði stöðugt og geti hjálpað okkur til framtíðar.

Það er of mikil áhersla lögð á að reyna að bregðast við einhverjum atburðum sem skipta ekki lengur máli fyrir framtíðina og of lítil áhersla lögð á það hvernig fjármálakerfið geti hjálpað því atvinnulífi sem við viljum búa við.“

Jafnvægið sé mikilvægast. Reglurnar þurfi að vera þannig úr garði gerðar að bankarnir haldi ekki alfarið að sér höndum og forðist að taka áhættu. Varhugavert sé þó að ganga of langt í þeim efnum. „Mér hefur fundist stjórnvöld hafa gengið allt of langt í að tryggja eiginfjárstöðu bankanna í stað þess að huga að því hvernig atvinnulíf við viljum hafa,“ segir Jón Daníelsson.

Jón Þór Sturluson, aðstoðarforstjóri Fjármálaeftirlitsins

Lækka hraðar en FME bjóst við

Jón Þór segir að á undanförnum árum hafi eiginfjárstaða stóru bankanna þriggja verið töluvert yfir kröfum Fjármálaeftirlitsins. Því sé ekki óeðlilegt að bankarnir stefni að því að lækka eiginfjárhlutfall sitt.

Bankarnir þrír hafa á síðustu tveimur árum greitt samtals 101 milljarð króna í arð, bæði reglulegan og sérstakan, til hluthafa. Stjórnir þeirra hafa auk þess lagt til að greiddir verði 53,4 milljarðar í arð á þessu ári sem er umtalsverð hækkun á milli ára.

„Það hefur komið í ljós á síðustu dögum og vikum að bankarnir eru að færa sig nær kröfum Fjármálaeftirlitsins hraðar en við áttum von á. En í öllum tilfellum er eiginfjárstaða bankanna í samræmi við kröfur og er enginn ágreiningur um þær arðgreiðslur sem tilkynnt hefur verið um síðustu daga, svo dæmi sé tekið.

En litið til framtíðar er ljóst að við erum að komast í annars konar og að einhverju leyti hefðbundnara umhverfi. Eiginfjárkröfur Fjármálaeftirlitsins munu þá skipta meira máli.“

Jón Þór útskýrir að eiginfjárkröfurnar, sem gerðar eru til bankanna, hafi tekið miklum breytingum í kjölfar fjármálaáfallsins 2008 með innleiðingu Basel III regluverksins. Sem dæmi hafi sérstakir eiginfjáraukar verið teknir upp en þeir séu hugsaðir fyrst og fremst í þjóðhagsvarúðarskyni. Eru þeir byggðir á mati á áhættu af kerfinu í heild, en ekki af einstökum bönkum. „Um er að ræða fastan varúðarauka, kerfisáhættuauka, eiginfjárauka á kerfislega mikilvæga aðila, sem skal endurskoða á tveggja ára fresti, og í fjórða lagi sveiflujöfnunarauka sem er endurskoðaður ársfjórðungslega og tekur mið af stöðu hagsveiflunnar á hverjum tíma.”

Haft var eftir Yngva Erni Kristinssyni, hagfræðingi Samtaka fjármálafyrirtækja, í Markaðinum í síðustu viku að það skyti skökku við að Fjármálaeftirlitið skuli ganga lengra í beitingu eiginfjáraukanna en önnur Evrópuríki sem við berum okkur gjarnan saman við.

Jón Þór segir það ekki rétt. „Við setjum til að mynda ekki kröfur umfram það sem þekkist á Norðurlöndunum, að Finnlandi undanskildu. Kröfurnar vegna kerfisáhættu eru sambærilegar og er sveiflujöfnunaraukinn til dæmis hærri í Noregi og Svíþjóð en á Íslandi.“

Hann bendir auk þess á að eiginfjárkrafa vegna útlánaáhættu stóru bankanna, sem falli undir svonefnda stoð II, hafi farið lækkandi jafnt og þétt á undanförnum árum í takt við batnandi eignagæði bankanna. „Það er ákveðinn hluti heildarkröfunnar sem tengist eignagæðunum með beinum hætti og krafan í þeim hluta hefur þróast niður á við í tilfelli allra stóru bankanna.

Okkar sýn er sú að eignagæði bankanna hafi batnað jafnt og þétt frá hruni og eru um þessar mundir nálægt meðaltali í Evrópu. Það er því ekki rétt að halda því fram að við séum á einhvern hátt í öfundsverðri stöðu. Þróunin hefur verið jákvæð – og viljum við ekki gera lítið úr því – en það er ofsagt að staða bankanna að þessu leyti sé betri en víðast hvar annars staðar,“ segir Jón Þór.



Lán áhættusamari hér

Hann nefnir að skýrar ástæður séu fyrir því að gerðar séu ríkar þjóðhagsvarúðarkröfur til íslenskra banka. „Það eru ákveðnir undirliggjandi þættir sem gera lánveitingar á Íslandi áhættusamari en í mörgum öðrum ríkjum. Það hefur í grunninn bæði með stærð landsins og einhæfni atvinnulífsins að gera.

Flestir mælikvarðar sem meta áhættu í útlánum byggja á því að lán séu óháð hvert öðru og að fjárhæð láns skipti ekki máli. Þess vegna eru reiknaðir viðbótarmælikvarðar sem meta samþjöppunar­áhættu, annars vegar vegna einstakra skuldbindinga og hins vegar vegna atvinnugreina og landfræðilegra svæða. Í tilfelli Íslands benda umræddir mælikvarðar til þess að samþjöppunaráhætta sé tiltölulega mikil.

Til viðbótar má vísa til þess að hér á landi eru fyrir hendi afar greinilegir undirliggjandi áhættuþættir sem gera það að verkum að fylgni vanefnda er tiltölulega há. Skýrasti þátturinn er íslenska krónan en einnig mætti nefna aflabrögð, verð á sjávarafurðum og áhuga ferðamanna á að sækja Ísland heim. Allt eru þetta undirliggjandi áhættuþættir sem hafa almenn áhrif á útlánagæði í landinu .

Í þriðja lagi ríkir samþjöppun í bankakerfinu. Við höfum þrjá banka sem hver og einn er það stór að áfall eins þeirra getur ógnað kerfinu öllu. Það er óvenjumikil hætta miðað við flest önnur lönd.

Öll þessi atriði eru í mínum huga skýr rök fyrir því að það sé fullt tilefni til þess að beita þjóðhagsvarúðartækjum í nokkrum mæli hér á landi,“ segir aðstoðarforstjóri FME.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×