Bíó og sjónvarp

Hitamál sem varðar ekki síður okkur Íslendinga

Magnús Guðmundsson skrifar
Kvikmyndin Sami Blood hefur gert það gott á kvikmyndahátíðum víðsvegar um heiminn.
Kvikmyndin Sami Blood hefur gert það gott á kvikmyndahátíðum víðsvegar um heiminn.
Norræna kvikmyndahátíðin hefst í dag og stendur til þriðjudags. Kristbjörg Kona Kristjánsdóttir hjá Norræna húsinu bendir á að frítt sé inn á allar myndir á hátíðinni en tryggja þurfi sér miða í tíma.

„Hátíðin er búin að vera hérna hjá okkur síðan 2012 og hefur tekið ýmsum breytingum á þeim tíma,“ segir Kristbjörg, sem er markaðs- og kynningarstjóri Norræna hússins. Norræna kvikmyndahátíðin hefur þá sérstöðu að það er frítt á allar sýningarnar en engu að síður þarf fólk að tryggja sér miða í gegnum vefsíðuna tix.is eða á vef Norræna hússins. Allar myndirnar eru sýndar með enskum texta.

Kristbjörg segir að þetta sé vissulega til þess að auka á vinsældir hátíðarinnar og að vinsældir hennar fari sífellt vaxandi.

 „Á meðal þeirra mynda sem við erum með í ár er The Square eftir sænska leikstjórann Ruben Östlund en myndin fékk Gullpálmann í Cannes á síðasta ári og er að auki tilnefnd til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin. Þetta er mynd sem hefur verið sýnd í Bíói Paradís og svo er reyndar allt orðið fullt á þessar sýningar hjá okkur og það var fljótt að gerast. Sami Blood, er fyrsta mynd sænska leikstjórans Amanda Kernell, og er mögnuð mynd um samíska stúlku og fordóma sem hún og fólkið hennar þarf að búa við.“

Kristbjörg Kona segir að svo verði einnig á hátíðinni stórmyndir á borð við norsku myndirnar Cave og Blind að ógleymdri stórmyndinni Birkebeinerne.

„Þá er ekki síður spennandi finnska myndin The Eternal Road sem er byggð á verðlaunaskáldsögu Antti Tuuri og var framleidd í tilefni af 100 ára afmæli Finnlands. Það ætti enginn að láta þessar myndir fram hjá sér fara.“

Vinsældir heimildarmynda virðast fara vaxandi með degi hverjum og Kristbjörg Kona segir að hátíðin taki vissulega mið af því. 

„Á meðal mjög forvitnilegra heimildarmynda er norska myndin Barndom eftir norska leikstjórann Margreth Olin. Þetta er frábær mynd sem fjallar um það hvernig börn leika sér á eigin forsendum en fylgst er með ári í lífi barna á aldrinum 1-7 ára. Miranda – The Making of a Politician eftir sænska leikstjórann Mats Ågren er einnig mjög áhugaverð eins og fjölmargar fleiri.“

Kristbjörg Kona segir að það sé um að gera að kynna sér dagskrána á vef Norræna hússins og næla sér í fría miða sem allra fyrst.Vísir/GVA
Kristbjörg nefnir einnig finnsku myndina Punk Syndrome eftir leikstjórana Jukka Kärkkäinen og J-P Passi.

„Þeir segja sögu pönkhljómsveitarinnar Pertti Kurikan Nimipäivät, sem kom fram á Iceland Airwaves 2016 og tók þátt í Eurovision 2015 sællar minningar. En svo er nú bara um að gera að kynna sér dagskrána vel á vef Norræna hússins og drífa í að næla sér í miða sem allra fyrst. Það er fjölmargt skemmtilegt í boði.“

Kristbjörg Kona leggur áherslu á að markmiðið í Norræna húsinu sé að kynna norræna menningu fyrir Íslendingum og að það sé ókeypis. 

Flóttamaður frá Sýrlandi og kona frá Rauða krossinum taka þátt í umræðum eftir sýningu dönsku heimildarmyndarinnar The Wait eftir leikstjórann Emil Langballe 27. febrúar.
„Þetta tekst í langflestum tilfellum og það er ánægjulegt. Það er margt, til að mynda í heimi kvikmyndanna, sem á erindi til okkar enda eigum við margt sameiginlegt.

Gott dæmi um það er danska heimildarmyndin The Wait eftir leikstjórann Emil Langballe. Þar er fjallað um það þegar er verið að vísa innflytjendum með fjölskyldur úr landi eftir langa bið sem hefur leitt af sér góða aðlögun barna. Þetta er málefni sem hefur líka verið mikið í umræðunni hér og það ekki að ástæðulausu.

Norðurlöndin í Fókus munu standa fyrir umræðum eftir myndina sem verður sýnd kl. 17 þann 27. febrúar. Það kemur flóttamaður frá Sýrlandi og kona frá Rauða krossinum til þess að taka þátt í þeim viðburði. Þetta er hitamál alls staðar á Norðurlöndum og um að gera að koma og fá sýn á það frá öðrum löndum og ræða svo málið í kjölfarið.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×