Enski boltinn

Ótrúlegar tölur og staðreyndir um sigur Wigan á Man. City

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Will Grigg logar.
Will Grigg logar. getty
C-deildarliðið Wigan gerði sér lítið fyrir og sló besta lið Englands, Manchester City, úr leik í enska bikarnum á mánudaginn þegar að Will Grigg skoraði eina markið í 1-0 sigri.

Wigan vann City í úrslitum bikarsins árið 2013 eins og frægt er en féll nokkrum dögum síðar og hefur ekki spilað í úrvalsdeildinni síðan. Liðið er nú í þriðju efstu deild og er 43 sætum fyrir neðan City.

BBC er með skemmtilega úttekt á leiknum á heimasíðu sinni þar sem farið er yfir nákvæmlega hversu stór og ótrúlegur þessi sigur var þar sem munurinn á liðunum er ógnvænlegur.

Samkvæmt rannsóknarmiðstöðinni CIES Football Observatory er City með dýrasta fótboltalið heims og er byrjunarliðið sem spilaði á mánudaginn metið á 349 milljónir punda.

Wigan-liðið samanstendur af leikmönnum sem komu á frjálsri sölu en dýrastur er markaskorarinn sem kostaði Wigan 1,3 milljónir punda. Heildarverðmæti byrjunarliðsins eru rétt rúmar 1,8 milljónir punda.

Wigan var aðeins 17,5 prósent með boltann í leiknum og kláraði 61 prósent af 184 sendingum sínum í leiknum. Manchester City reyndi 843 sendingar og kláraði 91 prósent af þeim. Liðið var 82,5 prósent með boltann og átti 29 skot að marki.

Wigan er aðeins eitt af þremur liðum í Evrópu sem hefur unnið Man. City á leiktíðinni en hin eru Shakhtar Donetsk í Meistaradeildinni og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni.

Að neðan má sjá hápunkta úr leiknum




Fleiri fréttir

Sjá meira


×