Fótbolti

Umbi bendir á augljósa staðreynd: Tíu og hálfur milljarður króna er mikill peningur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Icardi fagnar marki.
Icardi fagnar marki. Vísir/getty
Mauro Icardi, framherji Inter, er eftirsóttur og gæti yfirgefið ítalska félagið í sumar. Riftunarverð hans er aftur á móti svimandi hátt og gæti komið í veg fyrir að eitthvað stórlið kaupi hann frá Inter.

Riftunarverð Icardi er 74 milljónir evra eða tíu og hálfur milljarður króna. Umboðsmaður leikmannsins er konan hans, Wanda Icardi, en hún býst við að Inter sleppi honum nú fyrir minni uupphæð en það.

„Ég hef ekki hitt yfirmann knattspyrnumála hjá Inter en við tölum reglulega í símann. Hann veit hvað égg er að hugsa og ég veit hver staða félagsins er. Það voru nokkur lið spennt fyrir Mauro í janúar,“ segir Wanda Icardi í viðtali við Corriere dello Sport.

„Mauro er ánægður hjá Inter og hefur verið þeim traustur. Þetta var ekki í fyrsta skipti sem stærri félög sýna honum áhuga en alltaf hefur hann kosið að klæðast Inter-treyjunni.“

Wanda segir það koma til greina hjá Inter að afnema riftunarverðið og leyfa félögum sem vilja kaupa Icardi að koma með tilboð undir 74 milljónum evra.

„Ég held að Inter sé bara ánægt með að það eigi svona verðmætan leikmann en tíu og hálfur milljarður er ansi mikill peningur. Þetta verður ekkert vandamál. Það þarf bara að semja um þetta,“ segir Wanda Icardi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×