Sport

Settu Chloe Kim utan á pakkann og allt seldist upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chloe Kim með Ólympíugullið sitt.
Chloe Kim með Ólympíugullið sitt. Vísir/EPA
Snjóbrettastjarnan Chloe Kim er ein allra vinsælasta íþróttastjarna Bandaríkjanna í dag. Á því leikur enginn vafi.

Chloe Kim, sem er aðeins sautján ára gömul, varð Ólympíumeistari í hálfpípunni í snjóbrettakeppni ÓL í Pyeongchang.

Hún hafði mikla yfirburði og hefði örugglega barist líka um verðlaunin fyrir fjórum árum hefði hún mátt keppa. Þá var hún bara of ung.

Það var búið að byggja upp miklar væntingar til Chloe Kim fyrir leikana í Pyeongchang en hún stóðst þær allar og gott betur.

Jimmy Fallon tilkynnti í þætti sínum í gærkvöldi, „The Tonight Show Starring Jimmy Fallon“ að Kellogg’s fyrirtækið ætlaði að setja í sölu takmarkað upplag af Kellogg’s morgunkorni með mynd af Chloe Kim utan á pakkanum. Chloe Kim var gestur hjá honum.





Viðbrögðin létu ekki á sér standa því upplagið seldist upp á innan við tíu klukkutímum.

Chloe Kim heillar alla upp úr skónum hvar sem hún kemur. Það er ekki nóg með að hún sé yfirburðarkona í sinni grein þá er hún létt og skemmtileg og tekur engu of alvarlega.

Hún er bara hún sjálf, stolt af uppruna sínum, stolt af foreldrum sínum og svo spillir ekki fyrir að brosið hennar bræðir alla á augbragði.

Það er óhætt að spá fyrir því að fleiri fyrirtæki muni reyna að nýta sér vinsældir Chloe Kim á næstunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×