Erlent

Reyndu að grípa nef eldflaugarinnar með risastóru neti

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mr. Steven í allri sinni dýrð.
Mr. Steven í allri sinni dýrð. Elon Musk
Bandaríska geimferðafyrirtækið SpaceX skaut á loft Falcon 9 eldflaug fyrr í dag. Bátur með risastóru neti var gerður út til þess að reyna að grípa nef eldflaugarinnar.

Eldflaugin sem notuð var til þess að koma gervihnetti fyrir spænska herinn á braut um jörðu hafði áður verið notuð  og því var ekki gerð tilraun til þess að láta eldflaugina lenda á jörðu niðri, líkt og svo oft áður hefur verið gert.

Nef eldflaugarinnar er þó rándýrt og var leitað leiða til þess að koma því aftur til jarðar í heilu lagi. Elon Musk, forstjóri SpaceX, birti myndina sem sjá má hér að ofan á Instagram af hátæknilegri lausn fyrirtækisins við að grípa nefið er það féll til jarðar.

Nefið var útbúið innbyggðum hreyflum og leiðsögukerfi sem stýra átti nefinu í rétta átt. Mr. Steven, sérlegt skip SpaceX, sem útbúið er gríðarstóru neti sem átti að grípa nefið var svo sent á þær slóðir þar sem reiknað var með að nefið myndi lenda.

Tilraunin mistókst en á Twitter segir Musk að nefið hefði lent í sjónum nokkur hundruð metra frá Mr. Steven. Segir hann að nefið sé nokkuð heillegt auk þess sem að netið ætti að geta gripið nefið í næstu tilraun, verði nefið útbúið stærri fallhlífum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×