Erlent

Starfsmenn framboðs Trump ákærðir fyrir fleiri fjármálaglæpi

Kjartan Kjartansson skrifar
Manafort var kosningastjóri Trump þar til í ágúst 2016. Hann steig til hliðar vegna ásakana um að hann hefði tekið við milljónum dollara frá aðilum tengdum rússneskum stjórnvöldum í Úkraínu.
Manafort var kosningastjóri Trump þar til í ágúst 2016. Hann steig til hliðar vegna ásakana um að hann hefði tekið við milljónum dollara frá aðilum tengdum rússneskum stjórnvöldum í Úkraínu. Vísir/AFP
Robert Mueller, sérstakur rannsakandi bandaríska dómsmálaráðuneytisins, hefur bætt við fleiri brotum við ákæru á hendur fyrrverandi kosningastjóra og aðstoðarkosningarstjóra forsetaframboðs Donalds Trump, þar á meðal vegna fjársvika og peningaþvættis. Ákæruliðirnir voru þingfestir hjá dómstól í Washington-borg í dag.

Washington Post segir að 32 liðum hafi verið bætt við ákærurnar gegn þeim Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra Trump, og Rick Gates, aðstoðarkosningastjóra og viðskiptafélaga Manafort til fjölda ára. Þeir voru báðir upphaflega ákærðir í tengslum við Rússarannsókn Mueller í október.

Manafort er nú meðal annars sakaður um að hafa veitt banka rangar upplýsingar um tekjur sínar þegar hann sótti um lán. Nýju ákæruliðirnar varða einnig skattalagabrot. Manafort hafi ekki gefið upp eignir á erlendum bankareikningum með réttum hætti, að því er segir í frétt New York Times.

Ekki liggur enn fyrir hvenær réttað verður yfir Manafort og Gates. Þrír lögmenn þess síðarnefnda hafa óskað eftir því að fá að segja sig frá málinu en dómari hefur enn ekki tekið afstöðu til þess. Dómarinn hefur kvartað undan töfum af völdum bæði verjenda og sækjenda.

Manafort og Gates voru upphaflega ákærðir fyrir peningaþvætti, fjársvik og brot á lögum um starfsemi málafylgjumanna fyrir erlend ríki í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir

Mueller ákærir lögmann fyrir lygar

Hann á að hafa logið um samskipti sín við Rick Gates, fyrrverandi starfsmann forsetaframboðs Donald Trump, og um vinnu hans fyrir Dómsmálaráðyneyti Úkraínu árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×