Erlent

Skaðlegt tönnum að sötra og narta

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ávaxtate og aðrir súrir drykkir eru sérstaklega skaðlegir tönnunnum.
Ávaxtate og aðrir súrir drykkir eru sérstaklega skaðlegir tönnunnum. Vísir/Getty
Að sötra ávaxtate og aðra sýrumyndandi drykki getur haft slæmar afleiðingar fyrir tennur og glerjunginn ef marka má niðurstöður rannsóknarhóps úr Kings College í Lundúnum. Hópurinn kannaði mataræði 300 einstaklinga sem allir áttu það sameiginlegt að vera með slæma tannheilsu.

Niðurstöður hópsins benda til þess að það að drekka súra drykki; eins og ávaxtate, bragðbætt vatn, sykraða sem og sykurlausa gosdrykki, á milli máltíða eða reglulega yfir daginn geti leitt til alvarlegrar tæringar tannanna.

Vandamálið ku vera að færast í aukanna, ekki síst vegna þess að fólk er farið að borða óreglulegar en áður að sögn vísindamannanna.

Það að vera sífellt að sötra á drykkjum yfir daginn, þannig að tennurnar eru í raun í stöðugu sýrubaði, sé gríðarlega skaðlegt fyrir glerjunginn.

„Ef þú tekur þér langan tíma í að drekka drykki, þ.e. meira en fimm mínútur, geymir mat í munninum eða nartar á ávöxtum í stað þess að borða þá strax - þá getur það skemmt tennurnar,“ er haft eftir dr. Saoirse O'Toole, sem fór fyrir rannsóknarhópnum, á vef breska ríkisútvarpsins.

Doktorinn ráðleggur fólki að fá sér ekki margar súrar máltíðir á dag. Ef fólk vill fá sér epli seinni partinn ætti það ekki að fá sér vín með kvöldmatnum. „Reynið bara að hafa mataræðið fjölbreytt.“

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×