Butland gaf Leicester jafntefli

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Leikmenn Leicester fagna klaufalegu sjálfsmarki Butland
Leikmenn Leicester fagna klaufalegu sjálfsmarki Butland vísir/ap
Ótrúlegt sjálfsmark Jack Butland kom í veg fyrir að Stoke næði í sinn annan útisigur á tímabilinu þegar liðið sótti Leicester heim á King Power völlinn í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Eftir að Leicester hafði nærri einokað boltann í fyrri hálfleik, án þess þó að skapa sér nein framúrskarandi færi, þá kom Xherdan Shaqiri gestunum í Stoke yfir undir lok fyrri hálfleiks með marki úr hraðaupphlaupi.

Varnarmenn Leicester gáfu Svisslendingnum allt of mikið pláss og hann gat mundað skotfótinn og lagt boltann listilega framhjá Kasper Schmeichel í markinu. Shaqiri hefur nú skorað í þremur leikjum í röð fyrir Stoke og er það í fyrsta skipti á ferli hans sem hann skorar svo þétt.

Stoke hafði spilað vel í seinni hálfleiknum en gestirnir fengu blauta tusku í andlitið á 71. mínútu þegar Jack Butland misreiknar fyrirgjöf Marc Albrighton all svakalega og boltinn hrekkur af fingrum hans og inn í eigið mark, staðan orðin 1-1.

Þá tvíefldist lið heimamanna og þurfti Butland að hafa sig allan við að bæta upp fyrir mistökinn með frábærri vörslu frá Riyad Mahrez og Harry Maguire skaut frákastinu í stöngina.

Gestirnir áttu þó líka sín tækifæri þegar Shaqiri sendi boltann fyrir markið og hinn ungi Tyrese Campbell hefði getað gert frumraun sína í ensku úrvalsdeildinni eftirminnilega með sigurmarki hefði hann verið kominn aðeins framar í teiginn í hlaupinu. Campbell er sonur fyrrum framherjans Kevin Campbell og er aðeins 18 ára gamall.´

Hvorugt liðið náði þó að knýja fram sigurmarkið, þrátt fyrir skothríð að marki Stoke á loka mínútunum, leikurinn endaði 1-1 sem Paul Lambert lítur væntanlega á sem mikil vonbrigði miðað við þá stöðu sem upp var komin í leiknum. Stoke er með lélegasta útivallarárangur allra liða í ensku deildarkeppninni, aðeins einn 0-1 sigur, í vetur og hefði getað klifrað úr fallsæti með sigri.

Þessi úrslit þýða að Stoke situr sem fastast í 19. sæti úrvaldeildarinnar. Leicester lyfti sér upp fyrir Burnley í 7. sætið en Jóhann Berg Guðmundsson og félagar leika gegn Southampton í dag og geta endurheimt stöðu sína með stigi úr þeim leik.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira