Erlent

Læknar fjarlægðu blöðruhálskirtil Stephen Fry vegna krabbameins

Birgir Olgeirsson skrifar
Stephen Fry sagði frá þessu í myndbandi sem hann birti á vef sínum fyrr í dag.
Stephen Fry sagði frá þessu í myndbandi sem hann birti á vef sínum fyrr í dag. YouTube
Leikarinn og sjónvarpsmaðurinn Stephen Fry fór í uppskurð vegna blöðruhálskrabbameins. Hann tilkynnti þetta í myndbandi sem hann birti á vef sínum í dag. Hann gekkst undir aðgerðina í janúar síðastliðnum og segir allt benda til að hún hafi heppnast vel.

Hann segir lækna hafa fjarlægt blöðruhálskirtilinn vegna krabbameinsins sem var ansi ágengt og segir því til sönnunar að ellefu hnúðar hafi verið fjarlægðir.

„Eins og sakir standa er ég við góða heilsu og hamingjusamur og vildi bara láta ykkur vita því orðrómur var kominn á kreik,“ segir Stephen Fry.

Hann segist vonast til að eiga nokkur ár eftir á þessari plánetu því hann nýtur lífsins. „Og það er undursamlegt að vera fær um að segja það,“ segir Fry.

Það tók hann nokkurn tíma að venjast þeirri tilhugsun að hann væri með krabbamein og þurfti að minna sig reglulega á það, því hann hélt að hann væri ekki manneskja sem fengi krabbamein.

„Ég veit að þetta er klisja, en ekki halda að þetta geti ekki hent þig.“

Krabbamein í blöðruhálskirtli er algengasta krabbamein íslenskra karla. Á hvert greinast á Íslandi um 220 karlar með krabbamein í blöðruhálskirtli og um 50 látast af völdum sjúkdómsins. Á vefnum Doktor.is kemur fram að tveir af hverjum þremur eru komnir yfir sjötugt þegar meinið greinist en sjúkdómurinn er mjög sjaldgæfur hjá karlmönnum undir fimmtugu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×