Umfjöllun og viðtöl: Afturelding 20-19 Fjölnir | Afturelding vann í æsispennandi leik

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Mikk Pinnonen, leikmaður Aftureldingar.
Mikk Pinnonen, leikmaður Aftureldingar. Vísir/Eyþór
Afturelding vann dramatískan sigur á Fjölni í Olísdeild karla í kvöld.

Fyrri hálfleikur einkenndist fyrst og fremst af frábærri markvörslu með dass af hágæða varnarleik. Bæði lið áttu erfitt með að brjóta andstæðing sinn niður og var staðan því einungis 9-8, Aftureldingu í vil, í hálfleik.

Fjölnir byrjuðu svo seinni hálfleikinn frábærlega og tóku fljótlega forystu og héldu henni frá 35. mínútu til 56. mínútu.

Fjölnir voru flottir á þessum kafla en eins og svo oft áður í vetur brást liðinu bogalistinn á lokametrunum. Afturelding tók þá forystuna og gat Fjölnir að lokum jafnað metin á lokasekúndum leiksins en eins og svo oft áður í leiknum varði Lárus Helgi og tryggði þar með heimamönnum sigur, 20-19.

Afhverju vann Afturelding?

Númer 1, 2 og 3 er ástæðan Lárus Helgi. Hann stóð í rammanum í kvöld og var hreinlega frábær. Tölum nánar um hann á eftir.

Annars var Afturelding seigara á lokametrunum. Fjölnir voru flottir í seinni hálfleik en eins og svo oft áður féll botninn úr liðinu á lokamínútum leiksins. Fjölnir væri líklega mun hærra á töflunni ef leikir enduðu eftir 55 mínútur en ekki 60.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var mjög stífur og gekk báðum liðum illa að finna leið að markinu. Þá verður auðvitað að hrósa varnarleik liðanna en hann var mjög góður og var markvarslan enn betri.

Svo er það auðvitað fílinn í herberginu en það er lokasprettur Fjölnis í leikjum vetrarins. Hvernig þeir tapa niður forystum trekk í trekk á síðustu mínútum leikja er áhyggjuefni og þetta hlýtur að vera orðið sálrænt. Það er hægt að stóla á fall Fjölnis á lokamínútum leikja eins og klukku.

Hverjir stóðu upp úr?

Lárus Helgi var óaðfinnanlegur og kórónaði leikinn með að verja lokaskot Fjölnis og tryggja þar með sigur Aftureldingar. Lárus varði 19 bolta og endaði leikinn með 53% markvörslu.

Einnig má nefna Bjarka Snæ í marki Fjölnis en hann varði marga erfiða bolta og endaði leikinn með 14 varða bolta og 43% markvörslu.

Í sókninni bar mest á Birki Benediktssyni en hann skoraði sex mörk fyrir heimamenn úr níu skotum.

Hvað gerist næst?

Afturelding mætir Víkingum í Víkinni. Fjölnir mætir á sama tíma Fram í næsta leik en það væri eiginlega endanlega ljóst að Fjölnir fara niður ef þeir tapa honum. Því er um mjög mikilvægan leik að ræða.

Einar Andri: Hefðum aldrei klárað leikinn án Lárusar

„Ég er bara gríðarlega ánægður að við skyldum ná að klára þetta,“ sagði Einar Andri, þjálfari Aftureldingar, eftir nauman sigur liðsins á Fjölni, 20-19.

 

„Fjölnismenn voru hrikalega góðir og vel skipulagðir. Það var erfitt að brjóta þá niður og hefðu alveg eins getað unnið þennan leik í kvöld.“

Afturelding var undir á lokamínútum leiksins og höfðu átt erfitt með að brjóta vörn Fjölnis niður allan leikinn. En hvað olli því að á lokamínútunum náði liðið að klára leikinn?

„Menn héldu bara áfram. Við vorum að gera sömu hluti. Menn stigu upp í lokin og svo var Lárus auðvitað frábær í leiknum. Hann varði svo þennan bolta í lokinn,“ sagði Einar en Lárus var frábær á milli stangana í kvöld og varði síðasta skot Fjölnis í leiknum og tryggði þar með sigur Aftureldingar.

 

„Við hefðum aldrei klárað þetta ef ekki hefði verið fyrir stjörnuleik Lárusar.“

Bjarki Snær: Þetta tekur á

„Það er gríðarlega svekkjandi,“ sagði Bjarki Snær, markvörður Fjölnis, aðspurður hvernig tilfinningin væri að hafa tapað naumum leik hans manna og Aftureldingar í kvöld.

Fjölnir var að vinna leikinn á lokamínútunum en tapaði niður forystunni í tap á ögurstundu. En hvað olli því?

„Ég hreinlega veit það ekki. Kannski smá klaufaskapur. Þetta hefur verið svona eiginlega í allan vetur. Ég veit ekki hvað þetta er.“

Fjölnir er í fallsæti sem stendur og er að berjast fyrir lífi sínu. Aðspurður hvernig stemmingin væri í klefanum sagði hann alla reyna að vera jákvæðir.

„Það tekur alltaf í að tapa svona leikjum en það er samt alltaf stemming hjá okkur. En þetta tekur á.“

Arnar Gunnarsson: Er eiginlega of fúll til að melta þetta núna

„Mér fannst við leggja allt í þetta en við nýttum bara ekki færin í lokin eins og saga okkar hefur verið í ansi mörgum leikjum,“ sagði Arnar Gunnarsson, þjálfari Fjölnis, þungur á brún eftir naumt tap hans manna gegn Aftureldingu í kvöld.

„Leiðum mest megnið af seinni hálfleik. Erum svo manni fleirri með í jöfnum leik á lokametrunum en nýttum enga sókn þar. Það er mjög fúlt,“ sagði Arnar en aðspurður hvað það væri sem færi síendurtekið úrskeiðis á lokamínútunum var Arnar ekki viss.

„Ef ég hefði svarað værum við líklegast búnir að loka fyrir þann leka. Kannski höfum við svarið en getum ekki framkvæmt það. Ég veit það ekki. Ég er eiginlega of fúll núna til að melta það.“

En hvernig lítur Arnar á framhaldið?

„Framhaldið er bara næsti leikur á miðvikudaginn. Það er enn tölfræðilegur möguleiki ef Fram tapar öllum sínum og við vinnum alla okkar. Við höldum bara áfram þangað til sá möguleiki er úr sögunni.“

Lárus Helgi: Væri lögbrot að standa sig ekki í rammanum

Lárus Helgi átti stórleik í marki Aftureldingar í kvöld er hann varði 19 bolta í sigri liðisins á Fjölni, 20-19.

„Þetta var rosalega erfiður leikur og Fjölnismenn létu okkur hafa fyrir hlutunum þannig ég er bara gríðarlega ánægður með sigurinn.“

Lárus var hreinlega á eldi og er hann var beðinn um að meta frammistöðu sína var hann að vonum hógvær og sagði að vörnin hefði verið lykilinn að þessu öllu saman.

„Þegar strákarnir spila svona góðan varnarleik þá væri það hreinlega lögbrot að standa sig ekki þokkalega í rammanum. Þannig þeir eiga hrós skilið fyrir vörnina.“

Lárus kórónaði svo frammistöðu sína með því að verja síðasta skot Fjölnis í leiknum og þar með tryggja sigur Aftureldingar er hann varði boltann.

„Það var frábært að klukka boltann og sjá að hann ekki inn í netinu og vita að sigurinn væri kominn í hús.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira