Umfjöllun og viðtöl: Fram 24-28 Valur | Valur með þægilegan sigur

Benedikt Grétarsson skrifar
Andri Þór Helgason.
Andri Þór Helgason. Vísir/Anton
Íslandsmeistarar Vals halda góðu gengi áfram í Olísdeild karla í handbolta. Valsmenn heimsóttu Fram í Safamýrina í kvöld og unnu 24-28.  Staðan í hálfleik var 12-15, Valsmönnum í vil. Magnús Óli Magnússon skoraði 13 mörk fyrir Val og var óstöðvandi á köflum. Andri Þór Helgason var markahæstur í liði Fram með 8 mörk.

Bæði lið voru á fínu skriði fyrir leikinn og útlit fyrir hörku Reykjarvíkurslag. Fram komst í 4-2 en þá lokuðu meistararnir vörninni, skoruðu næstu sex mörk og náðu undirtökunum.

Um miðjan fyrri hálfleik gerðist umdeilt atvik. Þá fékk Arnar Birkir Hálfdánsson beint rautt spjald fyrir að brjóta á Ólafi Ægi Ólafssyni í hraðupphlaupi en undirritaður gat ekki séð að um neina snertingu væri að ræða. Bjarni Viggósson og Jón Karl Björnsson, dómarar leiksins voru á því að Arnar hefði brotið á Ólafi og þar með lauk lykilmaður Framara leik í kvöld.

Heimamenn þjöppuðu sér saman eftir þetta áfall og náðu að minnka muninn í eitt mark. Valsmenn náðu þó að slíta sig örlítið frá Fram undir lok hálfleiksins og leiddu með þremur mörkum að honum loknum.

Seinni hálfleikur var í nokkuð öruggum höndum Valsmanna. Hrósa ber Frömurum fyrir fína baráttu en heimamenn vantaði einfaldlega fleiri leikmenn sem geta tekið af skarið í sókninni, til að eiga séns gegn öflugu liði eins og Val.

Íslandsmeistararnir sigldu sigrinum nokkuð þægilega í höfn og fengu gott framlag frá mörgum leikmönnum. Sigurinn verður að teljast sanngjarn en vissulega hefði verið skemmtilegra fyrir áhorfendur ef Arnar Birkir hefði leikið allan leikinn. Þess má einnig geta að Þorsteinn Gauti Hjálmarsso lék ekki með Fram en Þorsteinn veiktist rétt fyrir leik og munar um minna

Af hverju vann Valur leikinn?

Það er í sjálfu sér ekkert óvænt að Íslands-og bikarmeistararnir klári liðið í níunda sæti en líklega má þó setja einhvern hluta af sigrinum á rauða spjaldið á Arnar Birki. Valsmenn eru samt með betra lið en Fram og þeir geta staðið hörkuvörn og verða að teljast líklegri, þó að allir leikmenn Fram hefðu tekið þátt í leiknum. Þennan varnarleik eru Valsmenn að leika án Ýmis Arnar Gíslasonar sem er meiddur og það eru góðar fréttir fyrir þjálfara liðsins.

Hverjir stóðu upp úr?

Magnús Óli Magnússon átti frábæran leik hjá Val og dró vagninn í sókninni. Þegar Magnús er algjörlega heill heilsu, er mjög erfitt að eiga við hann en hann getur refsað þér með uppstökkum, gegnumbrotum og gólfskotum. Ryuto Inage átti fína innkomu en allt Valsliðið verðskuldar hrós fyrir góðan varnarleik.

Valdimar Sigurðsson var langbestur Framara og illviðráðanlegur á línunni. Daníel Þór Guðmundsson varði nokkrum sinnum með tilþrifum en markmenn Fram voru einstaklega lánlausir með að verja skot, sem láku síðan í netið.

Hvað gekk illa?

Dómgæslan var oft á tíðum ekki alveg í takti við leikinn. Vissulega má benda á þá staðreynd að leikmenn virtust mæta svolítið spenntir í þennan leik og gáfu dómaraparinu aldrei séns. Nánast öllum dómum var mótmælt, líka þeim sem voru hárréttir. Rauða spjaldið var að mínu viti rangt og Framarar máttu alls ekki við því að missa lykilmann af velli gegn jafn sterku liði og Val.

Hvað gerist næst?

Valsmenn fá Stjörnuna í heimsókn að Hlíðarenda og ef allt er eðlilegt í veröldinni, eiga Íslandsmeistararnir að fá tvö stig í þeim leik. Stjörnumenn eru þó með gott lið og geta strítt Valsmönnum ef menn mæta væru kærir. Fram fer í örstutt ferðalag í Grafarvoginn og mætir þar fallbaráttuliði Fjölnis. Það verður hörkuleikur og ég spái miklum hasar í Dalhúsum.

Guðmundur Helgi: Ég verð að bíta í tunguna á mér

„Það gekk allt okkur á móti í kvöld. Þeir voru tveimur fleiri allan tímann, því miður. Við missum Þorstein Gauta úr leik með ælupest fyrir leik og svo missum við Arnar Birki af velli með rautt spjald sem var kolrangur dómur,“ sagði ósáttur Guðmundur Helgi Pálsson , þjálfari Fram sem mátti horfa upp á 24-28 tap gegn erkifjendunum í Val.

„Þetta var því bara erfitt en ég er stoltur af þeim leikmönnum sem kláruðu leikinn hjá okkur. Menn héldu áfram og bjuggu til leik úr þessu.“

Guðmundur leyndi ekki ekki vonbrigðum sínum með frammistöðu dómara leiksins og var verulega ósáttur við rauða spjaldið sem Arnar Birkir Hálfdánsson fékk í fyrri hálfleik.

„Ég ætla að skoða þetta aftur. Ég þarf bara að bíta í tunguna á mér núna en dómaranefndin fær þá bara klippur til að skoða. Þetta rauða spjald á Arnar Birki var ekkert eina atriðið í leiknum. Það eru ótal atriði sem ég bara skil ekki. Þetta eru einhverjar reglur sem ég fatta ekki og ég er búinn að vera í þessu í þó nokkur ár.“

Fram mætir Fjölni í næstu umferð og þar verða Framarar að krækja í stig til að halda í vonina að komast í úrslitakeppnina.

„Já já, að sjálfsögðu. Restin af liðinu hjá mér gerði mjög góða hluti. Með örlítið betri markvörslu, hefðum við verið inni í þessum leik. Baráttan og karakterinn voru til staðar og ég er í raun ánægður með fullt af hlutum í þessum leik. Við forum bara í næsta leik gegn Fjölni og verðum að ná í tvö stig, það er ekki flóknara en það,“ sagði Guðmundur Helgi Pálsson

Snorri Steinn: Þetta var rautt spjald

Snorri Steinn Guðjónsson, spilandi þjálfari Vals var sáttur við stigin tvö sem Valur sótti í Safamýri í kvöld.

„Við vorum með yfirhöndina nánast allan leikinn en náðum aldrei að slíta okkur almennilega frá þeim. ég er ekkert pirraður yfir þeirri staðreynd en hefði vissulega viljað sjá okkur sigla þessu aðeins betur í höfn. Ég tek samt ekkert af Fram sem er með gott lið sem hélt áfram allan tímann.“



„Við vorum kannski ekki alveg að leysa þessa 3-2-1 vörn þeirra á köflum. Það komu kaflar þar sem við vorum mjög góðir en svo duttum við aðeins niður. Vörnin var góð og við náðum að rúlla þessu ágætlega. Markmennirnir skiptu leiktímanum á milli sín og það var bara margt gott í þessu. Þetta var þriðji leikurinn á fáum dögum og við eigum aftur leik á miðvikudaginn en það voru fullt af fínum hlutum í gangi,“ sagði Snorri enn fremur.



Þrátt fyrir svekkjandi tap gegn Haukum í bikarkeppninni, hefur Valsliðið hefur verið á uppleið eftir áramót.

„Engin spurning. Tap í bikar er samt alltaf þyngra en tap í deildinni og tapið gegn Haukum var þungur biti. Við erum ánægðir með taktinn í liðinu þó að einhverjir leikir hafi tapast og ég er nokkuð sáttur með stigasöfnunina. Við eigum samt eitthvað inni, að okkar mati.“



Arnar Birkir Hálfdánsson fékk beint rautt spjald í fyrri hálfleik og Framarar voru gríðarlega ósáttir. Hvernig horfði þetta við Snorra?

„Mér fannst þetta vera rautt spjald. Þetta gerist auðvitað hratt en Óli er fremsti maður. Ég er reyndar enginn meistari í þessari reglubók þannig að við kíkjum bara á þetta í sjónvarpinu og sjáum þá hvort að þetta sé rétt,“ sagði Snorri Steinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira