Innlent

Heiðarlegur gamaldags stormur fram á nótt, jafnvel rok

Birgir Olgeirsson skrifar
Stormurinn sem gengur yfir landið er heiðarlegur og gamaldags að sögn veðurfræðings.
Stormurinn sem gengur yfir landið er heiðarlegur og gamaldags að sögn veðurfræðings. Vísir/Hanna

Viðvörunarstig fyrir Norðvesturland hefur verið hækkað úr gulri viðvörun í appelsínugula viðvörun. Vindur þar verður mikill í kvöld gangi spár eftir og er hætt við tjóni. Ferðalög á Norðvesturlandi eru ekki talin æskileg við þessar aðstæður sem munu vara þar til klukkan sex í fyrramálið.

Það verður víða hvasst á landinu í kvöld, eða heiðarlegur gamaldags stormur og jafnvel rok eins og veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands orðaði það í samtali við Vísi.

Mikil úrkoma verður á sunnanverðu landinu og jafnvel úrhelli á Suðausturlandi. Slydda verður á verður á Vestfjörðum og Breiðafirði og síðar rigning.

Ferðamenn fengu kynni af íslensku slagviðri í borginni í dag. Vísir/Hanna

Veðurstofan býst við því að þetta sé síðasta djúpa lægðin í febrúar, en 1. mars rennur í garð næstkomandi fimmtudag þannig að fyrirséð er nokkurra daga frí frá óveðri hér á landi.

Búist er við að óveðrið muni ganga niður víða um land í nótt en ekki þó fyrr en eftir hádegi á Austurlandi á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á morgun: 
Austan og suðaustan 8-15 m/s og slydda og síðar rigning með köflum, en heldur hægara og úrkomuminna á N- og A-landi. Hiti 0 til 7 stig, mildast með S-ströndinni.

Á mánudag:
Suðaustan 10-15 m/s og dálítil væta S- og V-lands, en annars mun hægara og bjartviðri. Hiti 3 til 8 stig.

Á þriðjudag:
Hæg suðlæg eða breytileg átt. Skýjað á V-verðu landinu og smá súld við ströndina, en annars léttskýjað. Hiti 2 til 7 stig að deginum.

Á miðvikudag:
Hægir vindar og víða bjartviðri, en skýjað N-lands og dálítil súld eða slydda við ströndina. Heldur svalara veður.

Á fimmtudag:
Norðaustanátt og dálítil él N- og A-til, en annars léttskýjað. Kólnar í veðri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.