Enski boltinn

Upphitun: Jói Berg og Gylfi mæta aftur til leiks

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Enska úrvalsdeildin fer aftur af stað í dag eftir bikarfrí um síðustu helgi. Sjö leikir fara fram þegar 28. umferðin hefst.

Við byrjum leik á King Power vellinum í Leicester þar sem heimamenn fá lið Stoke í heimsókn. Fyrir leiki dagsins er Stoke í 19. og næst neðsta sæti deildarinnar. Fari þeir með sigur hoppar liðið hins vegar í 15. sætið, að minnsta kosti tímabundið, því stutt er á milli liðanna í botnabaráttunni. Leicester er í áttunda sæti með 35 stig, tíu stigum meira en Stoke.

Fyrri leikur liðanna endaði með 2-2 jafntefli á bet365 vellinum í nóvember. Stoke gerði jafntefli í síðustu umferð gegn Brighton á meðan Manchester City skellti Leicester á Etihad vellinum 5-1.

Jóhann Berg Guðmundsson lagði upp mark Sam Vokes í fyrri leik Southampton og Burnley í veturvísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson og liðsfélagar hans í Burnley fá Southampton í heimsókn á Turf Moor. Burnley hefur ekki unnið deildarleik síðan 12. desember þegar liðið sigraði Stoke 2-0 og síðan eru liðnar 10 umferðir. Þrátt fyrir það situr Sean Dyche með lið sitt í 7. sæti deildarinnar.

Southampton er í nokkuð verri málum, er í fallsæti með 26 stig og það þarf að fara aftur til 21. október til þess að finna síðasta deildarleik Dýrlinganna sem endaði með sigri. Þegar þessi lið mættust á St. Mary's lagði Jóhann Berg upp sigurmark Sam Vokes í 0-1 sigri.

Liverpool getur komist tímabundið í annað sæti deildarinnar sigri liðið West Ham á heimavelli sínum. Mennirnir hans Jurgen Klopp voru bara í pásu um helgina því liðið datt út úr bikarnum í fjórðu umferð. Síðasti leikur þeirra var því 5-0 upprúllunin á Porto í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í Portúgal.

West Ham er um miðja deild, í 12. sætinu jafnt Watford að stigum í 11. sætinu. Það eru þó aðeins fjögur stig niður í fallsætið og því gæti tap á Anfield fellt þá um nokkur sæti þegar umferðinni lýkur miðað við úrslit úr öðrum leikjum. Leikur liðanna á Lundúnavellinum í nóvember lauk með 1-4 sigri Liverpool.

Botnlið West Bromwich Albion fauk úr bikarnum um síðustu helgi en hefur gott færi á að koma sjálfstraustinu aftur í lag þegar nýliðar Huddersfield mæta á The Hawthorns í dag. Huddersfield er í 17. sætinu, einu stigi fyrir ofan fallsvæðið, og því um sannkallaðan fallslag að ræða.

Þrátt fyrir ágætt gengi í bikarnum, þar sem þeir slógu meðal annars út Liverpool, hafa Jonny Evans og félagar aðeins unnið einn deildarleik frá því í ágúst. Sá sigur kom einmitt gegn nýliðum í deildinni, Brighton, á heimavelli. Huddersfield hefur verið í nokkuð frjálsu falli niður töfluna, fyrir utan sigur í síðasta leik, og hugsar West Brom líklegast gott til glóðarinnar í dag.

Brighton og Swansea eru líka að berjast í neðri hluta deildarinnar. Brighton er í 14. sæti og Swansea í því 16. og aðeins eitt stig skilur liðin að. Brighton fór með 0-1 sigur þegar liðin mættust í Wales fyrr í vetur.

Gylfi Þór Sigurðsson komst ekki á blað síðast þegar Everton og Watford mættust. Hvað gerir hann í dag?vísir/getty
Þá eru Bournemouth og Newcastle ekki langt fyrir ofan. Newcastle sæti fyrir ofan Brighton, liðin jöfn að stigum, og Bournemouth í 10. sætinu með 31 stig, þremur fleiri en andstæðingarnir. Newcastle vann sterkan sigur á Jose Mourinho og Manchester United í síðustu umferð á heimavelli sínum á meðan Bournemouth steinlá gegn Huddersfield.

Lokaleikur dagsins er svo viðureign Watford og Everton. Sam Allardyce fór með Gylfa Þór Sigurðsson, Wayne Rooney og alla hina leikmenn sína til Dubai í bikarhléinu þar sem hann reyndi að koma smá hita í Cenk Tosun sem hefur verið að láta kuldann í Englandi fara í sig.

Þeir ættu því að mæta ferskir til leiks til Watford í dag. Gylfi Þór var á skotskónum í síðasta leik gegn Crystal Palace og hann verður væntanlega í eldlínunni síðdegis. Þegar þessi lið mættust á Goodison Park var nóg um að vera þar sem Leighton Baines tryggði Everton 3-2 sigur með marki úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Myndband með upphitun fyrir daginn má sjá í spilaranum hér að ofan.

Leikir dagsins:

12:30 Leicester - Stoke, bein útsending á Stöð 2 Sport

15:00 Bournemouth - Newcastle

15:00 Brighton & Hove Albion - Swansea

15:00 Burnley - Southampton

15:00 Liverpool - West Ham, bein útsending á Stöð 2 Sport

15:00 West Bromwich Albion - Huddersfield

17:30 Watford - Everton, bein útsending á Stöð 2 Sport




Fleiri fréttir

Sjá meira


×