Innlent

Vegurinn að Gullfossi og Geysi sagður stórhættulegur

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Oddviti Bláskógabyggðar vill láta loka veginum upp að Gullfossi og Geysi því hann sé stórhættulegur og þoli alls ekki þá umferð sem er á honum. Svæðisstjóri Vegagerðarinnar segir starfsmenn sína ekki hafa undan að fylla upp í holur í veginum og tekur undir að ástand vegarins sé mjög slæmt.

Stórar holur eru í veginum við Hjarðarland og Heiði í Biskupstungum sem liggur að Geysi og Gullfossi en hann er einn fjölfarnasti ferðamannavegur landsins. Leiðin að þessum stöðum í gegnum Laugarvatn og fram hjá Úthlíð eru snöggtum skárri.

Helgi Kjartansson, oddviti Bláskógabyggðar, er hundfúll yfir ástandinu. Hann segist ekki sjá annað en að það þurfi að loka fyrir alla umferð á veginum við Heiði og Hjarðarland upp á Gullfoss og Geysi á meðan vegurinn verður lagaður í eitt skipti fyrir öll.

„Það verður að gera stórátak á þessu ári ef það á ekki illa að fara. Þetta eru bara stórhættulegir vegir og það verður að gera eitthvað,“ segir oddvitinn.

Aðrir vegir um svæðið séu hins vegar ekki í stakk búnir að taka við umferðinni ef þessum vegi verður lokað tímabundið.

Svanur Bjarnason, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar, segir ástand slitlaga víða slæmt á svæðinu. Hann vonast til að hægt verði að fræsa upp og styrkja sjö og hálfan kílómetra af veginum í sumar.

„Núna í vetur verðum við bara að reyna að halda í horfinu og kasta í þessar holur eins og hægt er,“ segir hann en er ekki tilbúinn að taka undir orð oddvitans um að loka þurfi veginum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×