Enski boltinn

Sektaðir ef síminn er á matarborðinu

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Shaqiri í baráttu við Wayne Rooney
Shaqiri í baráttu við Wayne Rooney vísir/getty
Leikmenn Stoke mega ekki vera í símanum yfir hádegismatnum eftir að Paul Lambert tók við liðinu. Þessu uppljóstraði Xherdan Shaqiri í viðtali við Sky Sports.

Lambert tók við liði Stoke í janúar eftir að Mark Hughes var rekinn frá félaginu og segir Shaqiri hann hafa komið með jákvætt yfirbragð inn í liðið.

„Hann er með þýskt yfirbragð. Þýsk lið sitja alltaf saman í matartímanum og þá má ekki vera með símann á borðinu. Það kemur liðinu betur saman, þá talar maður meira við liðsfélaga sem maður annars talar ekki mikið við,“ sagði Shaqiri.

Shaqiri og Lambert hafa báðir unun af þýska boltanum og spiluðu báðir í Þýskalandi. Þeir spiluðu báðir undir Ottmar Hitzfeld og segist Shaqiri vera ánægður með að hafa fengið Lambert til Stoke.

„Við erum ánægðir og fullir sjálfstraust.“

Stoke er í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar en getur klifrað upp töfluna með sigri á Leicester City í dag.

„Tímabilið hefur ekki verið mjög gott fyrir Stoke, en fyrir mig persónulega þá er þetta besta tímabil mitt svo ég er ánægður með mína frammistöðu,“ sagði Shaqiri.

Leikur Leicester og Stoke er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport frá 12:20.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×