Körfubolti

Martin: Vildi ekki týnast á lokamínútunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Martin Hermannsson í leiknum í kvöld.
Martin Hermannsson í leiknum í kvöld. Vísir/Bára
Martin Hermannsson átti enn og aftur stórleik fyrir íslenska landsliðið sem vann frábæran sigur á Finnum í kvöld, 81-76. Martin skoraði 81 stig og skoraði afar mikilvæg stig þegar mest á reyndi undir lokin í kvöld.

Íslenska liðið sýndi mikla baráttu í kvöld og Martin segir að það hafi verið bæting frá síðustu leikjum.

„Ég sagði eftir síðasta leik að mig fannst vanta þessa íslensku geðveiki og baráttu í síðustu leiki á undan. Það þarf að vera ef við ætlum að vinna leiki og það sýndi sig í kvöld,“ sagði Martin eftir leikinn í kvöld.

„Okkur langaði rosalega mikið til að vinna leikinn í kvöld. Mér leist ekkert á blikuna í þriðja leikhluta þegar þeir voru komnir tíu stigum yfir. Við ákváðum bara að bæta okkur um eitt þrep í vörninni og svo keyra á þá. Það gekk fullkomlega,“ sagði hann.

Pavel setti niður mikilvæga þriggja stiga körfu og það hélt lífi í leiknum að sögn Martins. En hann setti sjálfur tvær mikilvægar körfu eftir að hafa keyrt inn í teiginn með góðum árangri. Finnarnir réðu ekkert við hann.

„Það var talað um það eftir leikinn gegn Búlgaríu að ég hafi týnst á lokamínútunum og ekki tekið af skarið þegar við þurftum. Ég var því ákveðinn í að nýta tækifærið ef að sú staða kæmi upp og sýna að ég geti klárað leiki.“

Hann segist ekki hafa hugsað neitt sérstaklega um hvað hann var að gera þegar mest lá við. „Maður hugsar bara um að reyna að skora og það gekk upp. Hann var í mér allan tímann en ég var ákveðinn í að koma mér einhvern veginn upp að körfunni og klára lay up-ið.“


Tengdar fréttir

Jón Arnór: Gleði en ekki léttir

Jón Arnór Stefánsson var himinlifandi eins og gefur að skilja eftir sterkan sigur á Finnlandi í undankeppni HM 2019 í Laugardalshöll í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×