Innlent

Gríðarlegur vatnsleki í Álfkonuhvarfi

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Vatnsyfirborð í bílakjallaranum hefur hækkað hratt síðan klukkan 16 í dag.
Vatnsyfirborð í bílakjallaranum hefur hækkað hratt síðan klukkan 16 í dag. Anna María Ragnarsdóttir

Gríðarlegt magn af vatni hefur lekið inn í bílakjallara við Álfkonuhvarf í Kópavogi í kvöld. Íbúi segir allt hafa verið með felldu um klukkan 16 í dag en vatnsyfirborð hafi hækkað hratt síðustu klukkutímana.

Eins og áður hefur komið fram er aftakaveður á höfuðborgarsvæðinu og hefur slökkviliðið staðið í ströngu við að aðstoða íbúa í kvöld.

Anna María Ragnarsdóttir, íbúi í Álfkonuhvarfi, er ein þeirra sem þurft hefur á aðstoð slökkviliðsins að halda. Hún segir í samtali við Vísi að nágranni hafi bankað upp á hjá sér um klukkan 17 og þá hafi vatn verið byrjað að flæða í stríðum straumum inn í bílakjallarann.

Anna María segir að gríðarlegt tjón hafi orðið vegna vatnslekans í kvöld. Anna María Ragnarsdóttir

Anna María segist ekki hafa getað opnað dyrnar á bíl sínum þegar niður í bílakjallarann var komið og hafi hún því þurft að troða sér inn í gegnum skottið. Þá var vatnið orðið of djúpt til að koma bílnum út svo honum var komið fyrir á hæsta punkti í kjallaranum. Að því búnu var hringt á slökkviliðið.

„Þeir koma og segja að þetta hljóti að stoppa og að ég eigi að hringja á dælubíl. Það virkaði ekki og þetta hækkar og hækkar og núna er þetta komið í hálfa lofthæð – ef ekki meira,“ segir Anna María sem hringdi þá aftur á slökkviliðið.

„Slökkvilið kom svo aftur fyrir rúmum klukkutíma og eru núna með tvær dælur, en það hefur orðið gríðarlegt tjón og það eru bílar enn fastir inni.“

Anna María vill þó koma því á framfæri að hún sé þakklát slökkviliðsmönnunum sem hafi unnið ótrúlegt þrekvirki í kvöld. Heimili hafi verið ofar bílakjöllurum í forgangsröðinni, auk þess sem borið hefur á vatnslekum víða í Reykjavík í kvöld, og því skilji hún vel að ekki hafi verið hægt að bregðast strax við lekanum í Álfkonuhvarfi.

Gengið hefur á með suðaustanstormi um land allt í dag, auk töluverðrar rigningar sunnan heiða. Á vef Veðurstofu Íslands segir að lægja muni í nótt, fyrst vestantil.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.