Erlent

Leikkonan Emma Chambers er látin

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Breska leikkonan Emma Chambers er fallin frá.
Breska leikkonan Emma Chambers er fallin frá. visir/getty
Breska leikkonan Emma Chambers er látin, fimmtíu og þriggja ára að aldri. Þetta kemur fram á vef BBC.

Í tilkynningu frá umboðsskrifstofu Chambers kemur fram að leikkonan hafi látist af náttúrulegum orsökum.

„Hún færði okkur hlátur og hamingju,“ segir auk þess í tilkynningunni. Fulltrúar umboðsskrifstofunnar biðja almenning vinsamlegast um að veita fjölskyldunni svigrúm og næði á þessum erfiðu tímum.

Emma Chambers hefur leikið í fjölmörgum kvikmyndum en hún er einna helst þekkt fyrir að leika Alice Tinker í vinsælli þáttaröð breska ríkisútvarpsins BBC, The Vicar of Dibly. Þá minnast eflaust margir leikkonunnar fyrir frammistöðu hennar í rómantísku gamanmyndinni Notting Hill.

Chambers lék Honey í Notting Hill en hún var litla systir aðalpersónunnar sem Hugh Grant lék. 

Í myndskeiðinu hér að neðan má sjá brot úr myndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×