Innlent

Vill jafna stöðu foreldra óháð lögheimili barns

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Dómsmálaráðherra vonast til að geta lagt fram frumvarp sem myndi jafna stöðu svonefndra lögheimilisforeldra annars vegar og umgengnisforeldra hins vegar á næsta ári. Slík lagabreyting gæti skapað meiri sátt og jafnræði á meðal foreldra.

Ójöfn staða foreldra sem hafa skilið að skiptum eða deila forsjá barns á milli sín hefur lengi verið gagnrýnd á sama tíma og slíkt fyrirkomulag hefur orðið algengara.

Samkvæmt núgildandi lögum getur barn aðeins átt lögheimili á einum stað, en foreldrið sem hefur barnið skráð heima hjá sér á að jafnaði talsvert meiri réttindi í kerfinu en hitt. Þannig á það t.a.m. rétt á barnabótum og hærri námslánum auk þess sem það getur krafið hitt foreldrið um meðlag. Umgengnisforeldrar eiga hins vegar ekki sama rétt jafnvel þó að þeir annist barnið jafn mikið og lögheimilisforeldrið svokallaða.

Prófessor veitir ráðgjöf við samningu frumvarpa

Þessu vill Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, breyta. Hún hefur ráðið Hrefnu Friðriksdóttur, prófessor í fjölskyldu- og sifjarétti við Háskóla Íslands, til að veita ráðgjöf um frumvörp sem myndu jafna stöðu foreldra í þessum efnum.

Með samkomulagi á milli foreldra væri þá hægt að skrá barn með jafna búsetu hjá báðum. Barnið hefði þá í reynd lögheimili á tveimur stöðum. Báðir foreldrar hefðu þá rétt á barnabótum og meðlagi eftir atvikum hverju sinni.

„Ég held að ef við náum að leiða þetta í lög að þetta geti skapað meiri sátt á meðal foreldra í þessum efnum og jafnræði líka," segir ráðherra.

Aðspurð hvers vegna það hafi tekið stjórnvöld svo langan tíma að bæta úr stöðunni útskýrir Sigríður að málið sé afar umfangsmikið. Það falli undir verkskið fjögurra ráðuneyta og kerfisbreytingu þurfi hjá Þjóðskrá. Því þurfi að vanda vel til verka.

Hún vonast til þess að geta lagt fram frumvarp til umsagnar þegar í haust. Þá verði hægt að leggja málið fram á vorþingi 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×