Erlent

Fjórir lögreglumenn í haldi vegna hvarfs þriggja Ítala í Mexíkó

Birgir Olgeirsson skrifar
Lögreglumennirnir segjast hafa fylgt skipunum glæpamanna.
Lögreglumennirnir segjast hafa fylgt skipunum glæpamanna. Vísir/EPA
Fjórir lögreglumenn eru í haldi grunaðir um að hafa numið þrjá ítalska karlmenn á brott að beiðni glæpamanna þar í landi.

Greint er frá þessu á vef Reuters en þar kemur fram að ítölsku karlarnir hurfu 31. janúar síðastliðinn eftir að hafa verið handteknir af lögreglumönnum við bensínstöð í borginni Tecalitlan.

Saksóknari segir lögreglumennina fjóra, þrjá karla og eina konu, hafa átt þátt í hvarfi Ítalanna sem eru frá Napólí og heita Raffaele Russo, Antonio Russo og Vincenzo Cimmino.

Saksóknarinn greindi jafnframt frá því að lögreglumenn hefðu viðurkennt við yfirheyrslu að þeim hefði verið skipað af glæpagengi í borginni að afhenda mennina.

Leit stendur enn yfir að ítölsku mönnunum og er rannsókn málsins í fullum gangi.

Reuters segir að það liggi ekki fyrir hvers vegna lögreglumönnunum var skipað að gera þetta.

Tecalitlan er í Jalisco-ríki í Mexíkó. Jalisco er heimasvæði Jalisco New Generation Cartel, eins af öflugustu glæpasamtökum Mexíkó sem er þekkt fyrir að hafa lögreglumenn í vasanum. Saksóknari gat ekki upplýst hvort Ítalirnir þrír hefðu verið afhentir Jalisco New Generation Cartel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×