Erlent

„Metnaðarlaus“ starfsumsókn Steve Jobs metin á fimm milljónir króna

Birgir Olgeirsson skrifar
Steve Jobs fyllti út starfsumsóknina þremur árum áður en hann stofnaði Apple.
Steve Jobs fyllti út starfsumsóknina þremur árum áður en hann stofnaði Apple. Vísir/Getty
Starfsumsókn Steve Jobs, stofnanda Apple, frá áttunda áratug síðustu aldar er talin eiga eftir að seljast á 50 þúsund dollara, eða því sem nemur um fimm milljónum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag, á uppboði.

Fjölmiðlar ytra hafa veitt þessari umsókn þessa merka manns mikla athygli, sér í lagi fyrir það hversu lítinn metnað hann virðist hafa lagt í hana.

Umsóknina fyllti hann út árið 1973, eða þremur árum áður en hann stofnaði Apple-fyrirtækið sem gerði hann að einum af valdamestu og þekktustu mönnum heims.

Á umsókninni sagði hann hæfileika hans leynast í raftækni og hönnunarverkfræði og hakaði við „Já“ þar sem hann var spurður hvort hann hafi þekkingu á tölvum.

Starfsumsóknin er talin eiga eftir að seljast á 50 þúsund dollara.RR Auction
Ekki er vitað hvaða starf það var sem Jobs sótti um með þessari umsókn eða hvort hann fékk það.

Ættarnafn sitt ritaði hann með litlum upphafsstaf og sagði „reed háskólann“ vera heimili sitt, en hann sótti nám þar í borginni Portland um skamma stund áður.

Á umsókninni má sjá að Jobs var með bílpróf en þegar hann var spurður hvort hann hefði aðgengi að bíl svaraði hann „mögulega, en líklega ekki“

Steve Jobs lést árið 2011 eftir baráttu við krabbamein.

Uppboðið á starfsumsókn hans fer fram í Boston í Bandaríkjunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×