Innlent

Franskir skólakrakkar sluppu með skrekkinn

Margrét Helga Erlingsdóttir og Þórdís Valsdóttir skrifa
Allt tiltækt lið á Borgarnesi og Akranesi var sent á slysstaðinn.
Allt tiltækt lið á Borgarnesi og Akranesi var sent á slysstaðinn. Vísir/Arnar Halldórsson
Rúta valt á Borgarfjarðarbraut rétt sunnan við veginn að Heggstöðum á fimmta tímanum í dag. Í rútunni voru 26 franskir skólakrakkar ásamt kennurum, leiðsögumanni og bílstjóra. Hópslysaáætlun almannavarna hefur verið virkjuð. Talið er að rútan hafi fokið út af veginum.

Að sögn Bjarna K. Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra slökkviliðs Borgarbyggðar er enginn alvarlega slasaður eftir slysið. Opnuð hefur verið fjöldahjálparstöð á vegum Rauða krossins vegna slyssins og eru allir farþegar komnir þangað.

Allir viðbragðsaðilar frá Akranesi og Borgarnesi hafa verið sendir á Borgarfjarðarbraut. Tveir slökkviliðsbílar og tíu manns frá slökkviliði Akraness og þar að auki björgunarsveitarmenn frá Vesturlandi.

Uppfært kl. 18.22

Á vef almannavarna kemur fram að um fjögurleytið í dag hafi Neyðarlínu borist tilkynning um að rúta hafi oltið með 26 frönskum skólakrökkum og kennurum. Alls voru 32 í rútunni.

Einn fluttur á spítala

Í fyrstu leit út fyrir að stórslys hefði orðið en betur fór en á horfðist. Eins og fram kom hér að framan slasaðist enginn alvarlega en um minniháttar meiðsli er að ræða. Einn var fluttur með sjúkrabíl á Heilbrigðisstofnunina á Vesturlandi og síðar á Landspítala vegna einkenna frá hálsi.

Skólakrakkar og kennarar voru flutt með björgunarsveitarbílum í fjöldahjálparstöð Rauða krossins sem opnuð var í Menntaskólanum á Borgarnesi.



Rúta með 26 frönskum unglingum valt norðan við Borgarnes.Vísir/Sunna Sæmundsdóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×