Innlent

Frönsku skólakrakkarnir í góðu yfirlæti í fjöldahjálparstöðinni

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Frönsku skólakrakkarnir eru í góðu yfirlæti í fjöldahjálparstöð Rauða krossins sem var opnuð í Menntaskólanum á Borgarnesi. Ástandið á krökkunum er gott miðað við aðstæður. Þetta segir Kjartan Sigurjónsson, formaður Rauða krossins, í samtali við Sunnu Sæmundsdóttur, fréttamann Stöðvar 2.

Rúta valt á Borgarfjarðarbraut rétt sunnan við veginn að Heggstöðum á fimmta tímanum í dag. Í rútunni voru 26 franskir skólakrakkar ásamt kennurum, leiðsögumanni og bílstjóra. Betur fór en á horfðist. Vindhviða feykti rútunni af veginum.

Um leið og dregur úr vindi og aðstæður eru orðnar öruggar verður önnur rúta send eftir krökkunum sem ferjar þau til Reykjavíkur. Krökkunum var boðið upp á pítsuveislu auk þess sem þau fengu að spila tölvuleiki og borðtennis. Markmiðið er að leyfa krökkunum að jafna sig eftir veltuna.

Eins og fram hefur komið í fréttum Vísis var einn fluttur á Landspítalann vegna hálsmeiðsla en að sögn Kjartans var annar sendur til Akraness í skoðun og er hann útskrifaður. Krakkarnir í fjöldahjálparstöðinni eiga von á honum til baka, von bráðar.

„Þau voru ótrúlega góð, það er óhætt að segja það,“ segir Kjartan. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×