Lífið

Gisti heima hjá tvífara Peter Pettigrew

Benedikt Bóas skrifar
Auðunn Lúthersson, sem kallar sig Auður, var eitt sinn harðkjarnarokkari en spilar nú raftónlist betur en flestir.
Auðunn Lúthersson, sem kallar sig Auður, var eitt sinn harðkjarnarokkari en spilar nú raftónlist betur en flestir. VÍSIR/VILHELM
„Þetta var mikil keyrsla. Bæði í bíl sem og á orku. Mér var mjög vel við fólkið sem ég var að ferðast með, hljómsveit og tæknimönnum svo sá hluti var blessunarlega góður,“ segir Auðunn Lúthersson en hann er nýkominn heim eftir að hafa hitað upp fyrir fyrir íslenska bandið Vök í Sviss og Lilly Among Clouds í Þýskalandi og Austurríki.

Mikill áhugi hefur myndast hjá þýskum og svissneskum útvarpstöðvum fyrir efni Auðuns og því spennandi að fylgjast með uppgangi hans á þessum stóra markaði og trúlega eru fjölmörg ævintýri fram undan á næstu vikum hjá kappanum.

Lífið sem tónlistarstjarna er ekki alltaf bara dans á rósum. Hér er búið að hlaða tónleikabílinn með öllum þeim búnaði sem þarf. Auðunn
Hann segir að lífið á ferðalagi sé fínt en hann nýtti tímann til að lesa, sem hann hefur gert minna af þegar hann er hér á Fróni.

Auðunn kom víða við á þessu ferðalagi sínu og var aðstaðan því jafn misjöfn og staðirnir voru margir.

„Aðstaðan var ótrúlega ólík. Fyrsta kvöldið gisti ég heima hjá fimmtugum tvífara Peter Pettigrew sem lét mér líða illa fyrir að vilja ekki horfa á sjónvarpið með honum klukkan eitt um nótt,“ segir hann og hlær en Peter Pettigrew var einn af sendisveinum Voldemort í bókunum og kvikmyndunum um galdrastrákinn Harry Potter. 

Þótti heldur ófrýnilegur á hvíta tjaldinu enda þurfti hann að vera í líki rottu í meira en áratug. 

„Svo gisti ég á lúxushótelum í Sviss. Þá bóka staðirnir gistingu handa okkur sem er mikill munur.“

Auðunn samdi við eitt öflugasta höfundarréttarfyrirtækið í heiminum í dag, IMAGEM MUSIC á síðasta ári. Hjá fyrirtækinu eru listamenn eins og Daft Punk, M.I.A., Bombay Bicycle Club, William Orbit og Mark Ronson svo einhverjir séu nefndir.

Hér er Peter Pettigrew með galdastráknum Harry Potter í kvikmyndinni um Fangann í Azkaban.skjáskot





Fleiri fréttir

Sjá meira


×