Fótbolti

Neymar borinn útaf á börum í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar liggur hér sárþjáður á vellinum.
Neymar liggur hér sárþjáður á vellinum. Vísir/EPA
Neymar, framherji Paris Saint Germain, var keyptur til franska félagsins til að hjálpa liðinu að vinna langþráðan sigur í Meistaradeildinni.

Mikil óvissa er þó um þátttöku Neymar í leik upp á líf eða dauða í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar eftir að Brasilíumaðurinn var borinn af velli í gærkvöldi.





Neymar meiddist þá í 3-0 sigri Paris Saint Germain á Marseille en hann virtist snúa á sér ökklann þegar hann var að elta Bouna Sarr. Þá voru tíu mínútur eftir og PSG búið með skiptingarnar sínar.

Aðeins níu dagar eru í seinni leik Paris Saint Germain og Real Madrid en spænsku Evrópumeistararnir unnu fyrri leikinn 3-1 á heimavelli sínum. Þjálfarinn er þó nokkuð bjartsýnn eins og sjá má hér fyrir neðan.





Neymar náði þó að skapa mikinn usla áður en hann var borinn af velli. Kylian Mbappe skoraði fyrsta markið en svo lagði Neymar upp mörk fyrir þá Rolando (sjálfsmark) og Edinson Cavani.

PSG er með fjórtán stiga forskot í frönsku deildinni og getur því leyft sér að hvíla Neymar alveg fram að seinni leiknum við Real Madrid. Hvort að þessir níu dagar verði nóg er önnur saga.

Neymar hefur skorað 29 mörk í 30 leikjum með PSG síðan félagið gerði hann að dýrasta knattspyrnumanni heims í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×