Sport

Leikmenn gullliðs Rússa sungu sjálfir sönginn sem mátti ekki spila

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rússar syngja hér þjóðsönginn sinn, sönginn sem mátti ekki spila.
Rússar syngja hér þjóðsönginn sinn, sönginn sem mátti ekki spila. Vísir/EPA
„Við vissum alltaf að við myndum láta verða af þessu ef við næðum að vinna gullið,“ sagði Ilya Kovalchuk, einn af Ólympíumeisturum Rússa í íshokkí.

Rússneska landsliðið tryggði sér í gær gullið í íshokkí keppni karla á Ólympíuleikunum í Pyeongchang í Suður-Kóreu með 4-3 sigri á Þýskalandi í úrslitaleiknum. Sigurmarkið kom í framlengingu.

Alþjóðaólympíunefndin úrskurðaði fyrir leikana að Rússar fengju ekki að keppa undir sínum fána á Ólympíuleikunum í Pyeongchang og ef þeir myndu vinna gull þá yrði rússneski þjóðsöngurinn ekki spilaður heldur Ólympíulagið.

Ólympíulagið var vissulega spilað í verðlaunaafhendingunni en leikmenn rússneska landsliðsins tóku sig þá til og sungu rússneska þjóðsönginn á sama tíma.

Rússarnir brutu með þessu reglur Alþjóðaólympíunefndarinnar en aðeins nokkrum tímum fyrr hafði hún úrskurðað að Rússar mættu ekki labba inn á lokahátíðina með fánann sinn.







Rússum var refsað fyrir skipulagða og víðtæka misnotkun íþróttafólks þeirra á ólöglegum lyfjum sem náði hámarki á síðustu vetrarólympíuleikum sem fóru einmitt fram í Rússlandi. Þess vegna máttu Rússar ekki keppa undir fána þjóðar sinnar á leikunum í Pyeongchang.

Rússar höfðu ekki unnið gull í íshokkí á Ólympíuleikunum í 26 ár eða síðan þeir unnu undir merkjum Samveldisins í Albertville 1992 og gleðin var mikil í þeirra herbúðum eins og sjá má hér fyrir neðan.





„Þetta skiptir okkur miklu máli. Við höfum ekki unnið Ólympíuleikana síðan 1992. Það var því orðið langt síðan og þetta var okkar draumur. Mig dreymdi um þetta þegar ég byrjaði að spila íshokkí fimm ára gamall. Þetta er frábært og mjög góð tilfinning,“ sagði  Ilya Kovalchuk varafyrirliði rússneska liðsins.

Vísir/EPA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×