Erlent

Stuðningur við takmarkanir á byssueign komi ekki til greina

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Dana Loesch, talskona NRA.
Dana Loesch, talskona NRA. Vísir/Getty
Samtök byssueigenda í Bandaríkjunum, eða NRA, segja ekki koma til greina að samtökin styðji við einhverskonar takmarkanir á byssueign í Bandaríkjunum en umræða um slíkt er nú mjög hávær í landinu eftir að sautján voru skotnir til bana í framhaldsskóla í Flórídaríki á dögunum.

Yfirlýsing samtakana gengur gegn því sem Trump forseti hefur látið hafa eftir sér þar sem hann hefur í það minnsta opnað á möguleikann á því að herða reglurnar að einhverju marki.

Nemendur við Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólann þar sem ódæðið var framið hafa verið framarlega í umræðunni um breytingar á byssulöggjöfinni en Dana Loesch, talskona NRA, segir að samtökin taki ekki í mál að hefta frelsið til að eiga skotvopn með nokkrum hætti.

Hún sagði samtökin ekki á nokkurn hátt ábyrg fyrir skotárásinni í Parkland, heldur væri þar um að kenna lélegri löggæslu og duglitlum stjórnmálamönnum.

Á meðal þess sem Trump forseti, sem naut stuðnings NRA í kosningabaráttunni hefur stungið upp á, er að hækka lágmarksaldurinn á öflugustu skotvopnunum úr átján árum í tuttugu og eitt, en ódæðismaðurinn í Parkland, sem var nítján ára gamall, hafði sjálfur keypt sér AR15 árásarriffilinn sem hann notaði við verkið.


Tengdar fréttir

Lifði af skotárásina og þjarmaði að þingmanni í sjónvarpssal

Cameron Kasky, einn þeirra nemenda Marjory Stoneman Douglas-framhaldsskólans sem hafa verið hvað háværastir í baráttu sinni fyrir hertri byssulöggjöf í Bandaríkjunum, gekk hart að öldungardeildarþingmanninum og Repúblikananum Mark Rubio í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×