Innlent

Samhljómur um að birta gögn tíu ár aftur í tímann

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Steingrímur J. Sigfússon er forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon er forseti Alþingis. VÍSIR/ANTON BRINK

Samhljómur er meðal flokka á Alþingi um að birta eigi upplýsingar um þingfararkostnað minnst tíu ár aftur í tímann. Þetta er meðal þess sem kom fram á fundi forsætisnefndar Alþingis í dag. Þar var sérstaklega rætt um aksturskotnað þingmanna. Til stendur að opna vef þar sem upplýsingar um þingfararkostnað verði aðgengilegar á morgun.

„Það eru nokkrir farvegir sem þetta mál er í. Eitt er þessi upplýsingagjöf um þingfararkostnað og breytilegan kostnað og svo framvegis,“ segir Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og 5. varaforseti Alþingis, í samtali við Vísi.

„Það er þessi vefsíða sem á að opna. Hún á að opna á morgun en er ekki komin með nema fastakostnaðinn. Þeir eru enn að reikna þetta eitthvað á skrifstofunni og þurfa viku í viðbót. Þá kemur breytilegi kostnaðurinn.“

Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata. Vísir/Vilhelm

Að endingu ákvörðun forseta

Forsætisnefnd samþykkti á fundi í síðustu viku að birta ætti upplýsingar frá 1. janúar 2018 og að þær verði uppfærðar mánaðarlega framvegis. Nú virðist hins vegar kominn samhljómur í þingmenn um að birta eigi upplýsingar minnst 10 ár aftur í tímann.

„Það hefur ekki verið ákveðið,“ segir Jón Þór og bætir við að það sé að endingu ákvörðun Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis.Á fundinum fjallaði nefndin einnig um erindi Björns Levís Gunnarssonar um hvort forsætisnefnd skuli rannsaka málið sem brot á siðareglum. 

„Það erindi var tekið fyrir. Því fylgdi minnisblað frá skrifstofu þingsins,“ segir Jón Þór. Hann segir nefndarmenn nýbúna að fá það blað í hendurnar og muni ræða það á næsta fundi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.